Evrópskar borgir „hreyfanleikaprófaðar“

Hreyfanleiki fólks (Mobility), það er að segja möguleikar til að ferðast greiðlega og örugglega milli staða um skamman eða langan veg er eitt af meginmarkmiðum bifreiðaeigendaklúbba og heimssamtaka þeirra FiA. Það hefur lengi verið talsvert útbreiddur misskilningur að höfuð baráttumál þessara klúbba, FÍB þar á meðal, sé að gera hlut einkabílsins sem mestan og helst að útrýma öðrum valkostum eins og almannasamgöngum á landi. Þessi grilla er fjarri öllum sanni. Markmið FÍB og annarra bifreiðaeigendaklúbba innan FiA er að öllum tegundum samgangna á landi sé gert jafn hátt undir höfði. Fólk hafi raunverulega valkosti og geti valið þann kost hverju sinni sem best hentar til að komast greiðlega og örugglega í áfangastað.

http://www.fib.is/myndir/Athena.jpg
http://www.fib.is/myndir/Munchen.jpg
http://www.fib.is/myndir/Vinarborg.jpg
Neðan frá og upp: Vín, Munchen, Aþena.

Undirstaða góðs hreyfanleika innan borga er fyrst og fremst almannasamgöngur. Þær borgir sem fólk þrífst hvað best í, hvort heldur sem íbúar eða ferðamenn, eru þær sem hafa einhvers konar kjarna eða miðsvæði þar sem íbúðir og atvinnustarfsemi blandast. Móðursamtök FÍB og annarra systurklúbba okkar í Evrópu hafa nú látið kanna hversu góður hreyfanleikinn er í nokkrum helstu ferðamannaborgum álfunnar og má sjá niðurstöðurnar á meðfylgjandi grafi síðast í fréttinni. Heildarniðurstaða þessarar könnunar er eiginlega sú að hreyfanleikinn sé í nokkuð góðu lagi en gæti þó verið betri. Könnunin er birt undir merkjum EuroTEST. Að EuroTEST standa 16 bíleigendaklúbbar í 15 Evrópulöndum og þessi könnun var framkvæmd af einum þeirra; ADAC í Þýskalandi undir yfirumsjón svæðisskrifstofu FiA í Brussel. 

Will Botman forstöðumaður svæðisdeildar FiA í Evrópu segir að niðurstöður nýju könnunarinnar séu vissulega jákvæðar um margt en sýni um leið að margt betur megi vissulega betrumbæta.  Allar upplýsingar (skilti og merkingar) þurfi að vera skýrar og skiljanlegar öllum og vel sýnilegar. „Virkt og gott fólksflutningakerfi með fjölþættum leiðatengingum er bráðnauðsynlegt ekki síst þar sem  fólk er hvatt eða þvingað til að skilja bílinn eftir heima,“ segir Botman.
Könnuðirnir skoðuðu aðtriði eins og ferðatíma, hversu auðveld aðkoma var að almannasamgöngutækjunum, hvernig upplýsingagjöf var (er), farmiðakaup og fargjöld.  Almannasamgöngurnar í níu borgum reyndust viðunandi, góðar í ellefu borgum og mjög góðar í einni, Munchen. Tvær borgir féllu á prófinu; Zagreb og Ljubljana.

Sjálf prófunin fór þannig fram að prófunarfólkið kom akandi til borganna og lagði bílunum og notaði síðan almannasamögngukerfi borganna til ferðalaga innan þeirra. Bílastæðakostir í útjöðrum borganna eru þannig hluti prófsins, ásamt tengingum bílastæðanna við almannasamgöngutækin, lestar, sporvagna og strætisvagna. Með prófun sem þessari eru bifreiðaeigendafélögin að sjálfsögðu að ýta undir bættar almannasamgöngur og stuðla þannig að minni umferð einkabíla um borgir og minni umferðarhnútum og stíflum í gatnakerfum þeirra.

Forvitnilegt væri að gera könnun sem þessa á Reykjavíkursvæðinu. Höfuðborgarsvæðið hefur aldrei haft eina skipulagsstefnu heldur er hvert sveitarfélag svæðisins með sína eigin. Byggð er mjög dreifð og gisin sem nánast gerir það ómögulegt að skipuleggja og reka gott almannasamgöngukerfi.

Einn af meginkostum góðra almannasamgangna er sá að þær tryggja hreyfanleika þeirra sem sem  ekki aka bíl, t.d. þeirra svo kjósa eða geta ekki af heilsufarslegum eða efnahagslegum ástæðum ekið bíl.

Í myndröðinni til hér að ofan, til hægri við textann er efst  mynd frá Aþenu. Þar reyndist almannasamgöngukerfið í þvílíkum ólestri að hætt var við að hafa borgina inni í könnuninni. Næst efsta myndin er frá Munchen í Þýskalandi sem fékk hæstu einkunn. Á myndinni er sérstakur bíll - upplýsingamiðstöð á hjólum um almannasamgöngukerfi borgarinnar. Neðsta myndin er frá Vínarborg. Vín fékk miðluingseinkunn þótt samgöngukerfið þar sé í raun ágætt eins og margir Íslendingar þekkja sem þar hafa verið og dvalið. Hér að neðan eru niðurstöður könnunarinnar á grafísku formi.

http://www.fib.is/myndir/Eurotest_.jpg