Evrópubúar eru almennt jákvæðir gagnvart rafbílum
Umfangsmikil könnun á vegum European Alternative Fuels Observatory, EAFO, sem heyrir undir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sjá nánar hér, var kynnt í sumar. Könnunin var framkvæmd í 12 aðildarríkjum Evrópusambandsins og leiðir í ljós að Evrópubúar eru almennt jákvæðir gagnvart því að skipta yfir í rafbíl. Um 19.000 neytendur svöruðu könnuninni sem gerir hana að einni umfangsmestu viðhorfskönnun veraldar um rafbílavæðingu.
ESB stefnir að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum um 90% fyrir árið 2050. Rafbílar gegna lykilhlutverki í því að ná þessum markmiðum. Iðnaðurinn i kringum liþíum drifrafhlöður og rafbíla er í dag þróuð fjöldaframleiðsla. Bifreiðanotkun og þroski markaða er mismunandi á milli aðildarríkja. Góður skilningur á viðhorfum og óskum neytenda hjálpar til við stefnumótun og framkvæmd aðgerða.
Margir geta hugsað sér rafbíl innan fimm ára en harður kjarni hafnar því alfarið. Eitt af því sem kannað var eru þær hindranir sem neytendur telja í veginum varðandi kaup á rafbíl.
Í þeim 12 ríkjum þar sem könnunin var framkvæmd var hátt verð á rafbílum efst á lista yfir þröskulda í tengslum við rafbílavæðingu.
20 þúsund evrur er ásættanlegt verð
Að meðaltali eru íbúar í ESB löndunum tilbúnir að borga um 20.000 evrur fyrir nýjan eða notaðan rafbíl. Af þeim sem þegar eiga rafbíl í könnuninni höfðu 46 prósent þeirra borgað meira en 40.000 evrur fyrir bílana sína og 40 prósent á milli 20 og 40 þúsund evrur. Aðeins eitt prósent bíleigenda kaus að svara ekki.
57 prósent svarenda geta hugsað sé að kaupa rafbíl innan fimm ára. Í Svíþjóð var hlutfallið 62 prósent. Um 25 prósent svarenda geta alls ekki hugsað sér rafbíl og 18 prósent eru óákveðin.
Bæði eigendur rafbíla og aðrir bíleigendur eru hlynntir auknum ríkisstyrkjum til orkuskipta og rafbílavæðingar.
Fáir hlaða á almennum hæghleðslustöðvum
80 prósent rafbílaeigenda í könnuninni hlaða í heimahleðslustöð eða á hraðhleðslustöð. Aðeins 18 prósent nýta sér almennar hæghleðslulausnir.
Loftslagsávinningur og hagstæður rekstur var af flestum talinn helsti kostur rafbíla. Ökumenn rafbíla leggja áherslu á uppbyggingu hleðsluinnviða, litlar tafir við hleðslustöðar og skýrar verðupplýsingar. Af þeim sem svöruðu getur 31 prósent ekki hugsað sér að bíða eftir því að komast að á hraðhleðslustöð en 32 prósent sögðust tilbúin að bíða ef aðeins einn bíll væri á undan. Allt að klukkutíma bið var ásættanleg hjá 31 prósent svarenda og 6 prósent sögðust hafa biðlund í lengri tíma.