Evrópuráðið vill marktækari eyðslumælingu

Opinberar tölur um eldsneytiseyðslu bíla eru að mati Evrópuráðsins óásættanlega fjarri raunverulegri eyðslu bílanna í daglegri notkun. Eyðslutölurnar eru fengnar með staðlaðri mælingu inni á gólfi í rannsóknastofum. Bílarnir eru þar keyrðir á keflum og líkt eftir akstri í þéttbýli og úti á vegum. Til stendur að breyta mæliaðferðinni en breytingin mun taka nokkur ár. Þangað til vill Evrópuráðið bæta við núverandi mælingaaðferð, eyðslumælingu sem færi fram í almennri umferð á götum og vegum.

Dæmi um uppgefna eyðslu samkvæmt hinni stöðluðu Evrópumælingu er að bíll komist 24 km á hverjum eldsneytislítra. En í raunveruleikanum kemst þessi bíll einungis 17 km á hverjum lítra. Þetta er oft sá veruleiki sem kaupendur nýrra bíla reka sig á þegar þeir héldu sig geta treyst uppgefnum eyðslutölum. Þetta er óásættanlegt að mati Evrópuráðsins sem hyggst taka á málinu þannig að neytendur geti framvegis betur treyst því að opinberar eyðslutölur bílanna endurspegli eyðsluna í raunverulegri notkun. Samkvæmt óstaðfestum fréttum bá búast við tillögum frá Evrópuráðinu um þessi mál fyrir áramót.

En það er ekki bara eyðslutölurnar sem eru of lágar miðað við almennt aksturslag fólks í raunveruleikanum heldur eru tölur um magn skaðlegra efna í útblæstrinum líka of lágar. Þannig leiðir rannsókn Evrópusambandsins frá 2014 það í ljós að losun natríumoxíðsambanda frá dísilfólksbílum geti verið fjórum til fimm sinnum meiri í daglegri notkun heldur en staðlaða eyðslu- og mengunarmælingin sýnir.