Evrópusambandstillaga um hámarkshraða sendibíla

Nú liggur fyrir Evrópuþinginu tillaga um að að framvegis verði í sendibílum og léttum vörubílum búnaður sem gerir ómögulegt að aka þeim hraðar en 120 km á klukkustund. Megintilgangur með tillögunni er að draga úr CO2 útblæstri frá umferð flutningabíla.

 Þessi tillaga er reyndar ein af allmörgum sem hafa þennan sama tilgang – að draga úr CO2 útblæstri frá umferð atvinnubílanna. En flutningsmenn tillögunnar um innbyggðan hraðatakmarkara segja í greinargerð með frumvarpinu að þessir bílar, þ.e.a.s. sendibílarnir og litlu vörubílarnir séu nánast eingöngu notaðir í atvinnuskyni og hafi því enga þörf fyrir að fara hraðar en 120.

Sú tækni sem getur takmarkað hámarkshraða bíla sé löngu uppfundin og til staðar og fyrirfinnist þegar í fjölda bíla. Það sé því bæði einfalt og ódýrt í framkvæmd að draga umtalsvert úr CO2 útblæstri frá flutningageiranum með þessari einföldu aðgerð. Reyndar hafi fjöldi fyrirtækja sem reka sendibílaflota þegar byrjuð að láta gera þetta við sína bíla og jafnvel setja í bílana búnað ef hann er ekki til staðar í þeim.

Mengunarvarna-„ráðuneyti“ Evrópusambandsins hefur áður lagt fram tillögu um að skylda bílaframleiðendur til að draga úr útblæstri sendibílanna þannig að meðalútblástur þeirra verði að meðaltali undir 135 grömmum á kílómetra frá og með árinu 2020. Sú tillaga var felld en samkomulag varð um að lenda málinu við 150 grömm á kílómetrann. Mengunarvarnaráðuneytið sem stutt er m.a. af umhverfissamtökum, hyggst því reyna að ná upphaflega markmiðinu um 135 grömmin með því að takmarka hraða þessara farartækja.