Evrópuþingið bannar eitruð HA-olíuefni í dekkjum

The image “http://www.fib.is/myndir/Gislaved.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Gislaved vetrardekk. Hið fyrsta án HA-olíu.
Evrópuþingið hefur samþykkt bann við því að nota svonefnda HA olíu í framleiðslu bíldekkja. Efnið eru talið skaðlegt heilsu manna og dýra. Bannið verður innleitt í áföngum og frá og með 1. janúar 2010 má efnið ekki lengur fyrirfinnast í dekkjum sem seld verða á Evrópska efnahagssvæðinu.
Svíar líta á þessa niðurstöðu Evrópuþingsins sem sigur fyrir umhverfisstefnu sína því að áður en tveir Svíar hófu að vekja athygli á skaðsemi HA olíuefna árið 1994 vissi varla nokkur maður um að þau fyrirfyndust í dekkjum. Þessir menn eru umhverfisverkfræðingurinn Jan Ahlbom og eiturefnafræðingurinn Ulf Duus.
Jan Ahlbom segir í samtali við Auto Motor & Sport að í samþykkt Evrópuþingsins felist mikil viðurkenning fyrir þá félagana. Það hafi verið mjög erfitt að koma þeirri vitneskju og þekkingu sem þeir bjuggu yfir um skaðsemi efnanna á framfæri. Málið allt hafi sannað að það er eins gott að menn séu staðfastir og þrautseigir ef árangur á að nást.
HA-olía er eitrað þrávirkt úrgangsefni sem fellur til við framleiðslu smurolíu og smurefna. HA-olían er notuð sem íblöndunarefni í dekkjagúmmí og fer um einn lítri af efninu í hvert einasta dekk. Það þýðir að um 250 þúsund tonn af því hafa verið notuð í evrópskri dekkjaframleiðslu á hverju ári. Hið þrávirka efni er krabbameinsvaldur. Það berst út í umhverfið frá umferðinni, brotnar mjög hægt niður í náttúrunni en safnast upp í fituvefjum manna og dýra.
Gislaved dekkjaframleiðandinn varð fyrstur til að koma fram með vetrardekk sem alveg var laust við HA-olíu. Það var árið 1997. Dekkið reyndist vera ágætis vetrardekk og fljótlega hófu aðrir dekkjaframleiðendur að framleiða vetrardekk án HA-olíu. Hægar hefur gengið að útrýma efninu úr sumardekkjum. Finnska fyrirtækið Nokian er þó í fararbroddi í því efni og framleiðir margar gerðir dekkja sinna án þess að nota HA-olíu.