Eyðslutölurnar – er þeim treystandi?

http://www.fib.is/myndir/Nissan-logo.jpg
Raunverulegustu eyðslutölurnar hjá Nissan og Porsche.

Hjá bílaframleiðendum er eldsneytiseyðslan í forgrunni um þessar mundir og ef marka má þær eyðslutölur sem þeir gefa upp um bíla sína fer eyðslan síminnkandi. En eru þær marktækar? Tímaritin Auto Motor & Sport í Svíþjóð og Þýskalandi Reynsluaka og mæla eyðslu um leið nærfellt 600 nýrra bíla á hverju ári og bera saman við uppgefnar eyðslutölur framleiðenda samkvæmt Evrópustaðalsmælingu. Niðurstaðan er sú að eyðslumælingar tímaritanna og uppgefnar eyðslutölur framleiðenda standast sjaldan og í sumum tilfellum er mismunurinn verulegur.

Í þeirri eldsneytisdýrtíð sem nú er, skipta eyðslutölur bílakaupendur máii. Eyðslan er oftar en ekki það sem skiptir sköpum þegar fólk tekur ákvörðun um að kaupa nýjan bíl. Þar sem Evrópumælingin á að vera þannig úr garði gerð að hún endurspegli eldsneytiseyðslu bíla í eðlilegum akstri við venjulegar aðstæður ákváðu blaðamenn tímaritanna fyrrnefndu að mæla eyðslu bíla sem þeir reynsluaka og bera saman við uppgefnar eyðslutölur.

Mælingarnar leiða í ljós að meðaleyðsla reynsluakstursbíla árið 2007 reyndist 15% minni en sami bílafjöldi eyddi í reynsluakstri tímaritanna árið á undan. Meðaleyðslan 2007 var 9,3 lítrar á hundraðið  miðað við 10,9 lítrar árið á undan. Munurinn er 1,6 lítrar sem er vissulega athyglisvert. Dísilbílarnir hafa greinilega og skýra yfirburði yfir bensínbílana og reyndust 17 prósent sparneytnari en dísilbílarnir árið á undan en bensínbílarnir einungis 9 prósent sparneytnari.  

Þegar eyslutölurnar í bílaprófunum Auto Motor & Sport eru bornar saman við uppgefnar eyðslutölur bílaframleiðenda kemur í ljós að munurinn árið 2007 er að meðaltali 17,2 prósent Evrópumælingunni í óhag. Einhver gæti þar með sagt að bílakaupendur hafi verið sviknir um þessi 17,2 prósent árið 2007. En þar með er maður að gefa sér það að aksturslag blaðamannanna sem prófa bílana sé nær raunverulegu aksturslagi almennings en hið forritaða aksturslag Evrópsku staðalmælingarinnar.

En eyðslutölur framleiðendanna eru misjafnar: Sumir framleiðendur gefa upp eyðslutölur sem eru ansi nærri rauntölum Auto Motor & Sport meðan tölur annarra framleiðenda eru víðsfjarri og mun lægri. Meðal þeirra sem gefa upp eyðslutölur sem nánast þær sömu og tölur Auto Motor & Sport eru Porsche og Nissan en meðal bíla sem framleiðendur segja að eyði mun minna eru t.d. Lexus og Mini. Tvinnbílar Lexus skáru sig sérstaklega úr og eyddu hjá Auto Motor & Sport  verulega meiru en framleiðandinn segir að þeir eyði.