F1-braut byggð í Grikklandi

Nú í miðri efnahagskreppunni í Grikklandi hefur ríkisstjórn landsins ákveðið að setja hátt í 15 milljarða (ísl kr) í lagningu Formúlu 1 brautar og byggingu tengdra mannvirkja. Þessi útlát eru réttlætt með kunnuglegum hætti, sem sé þeim að koma verði hjólum atvinnulífsins af stað og draga úr atvinnuleysinu sem er gríðarlegt.

Efnahagsástand landsins er mjög slæmt og allt bendir til þess að samdráttur vergrar landsframleiðslu á árinu verði 6,5 prósent og vaxtarhorfur á næsta ári eru hreint ekki bjartar. En brautin verður lögð og byggð. Henni hefur verið fundinn staður í Xalandritsa sem er skammt utan við þriðju stærstu borg landsins; Patras. Beint, óafturkræft framlag gríska ríkissjóðsins til brautarinnar er tæplega 5 milljarðar en ríkið ábyrgist síðan afganginn að sögn The Telegraph í Bretlandi.