Færri bílar seljast í Evrópu
Eftirspurn eftir nýjum bílum í Evrópu hefur minnkað í sumar miðað við sama tíma í fyrra. Sala nýrra bíla í júlí varð 7,2 prósentum minni en í júlí á síðasta ári og salan í ágúst reyndist 15,6 prósentum minni en í ágúst á síðasta ári. Fyrstu átta mánuði ársins dróst salan saman um 3,9 prósent í Evrópu miðað við sama tíma í fyrra.
Frá þessu er greint á heimasíðu ACEA, sem eru samtök evrópskra bílaframleiðenda. Ástæður samdráttarins eru sagðar vera aðallega almenn svartsýni á efnahagsframvinduna og ofurhátt eldsneytisverð.
Í júlí reyndust nýskráningar bíla í álfunni 7,2 prósentum færri í en á sama tíma í fyrra, eins og fyrr segir. Þar munaði mest um Ítalíu (-10,9%), Bretland (-13%) og Spán (-27,5%). 1,5% aukning varð í Þýskalandi. Frakkland stóð nánast í stað (-0,2%).
Í ágúst fækkaði nýskráningum í löndum V. Evrópu um 16.5%. Eina undantekning var Portúgal. Þar varð 4,8% vöxtur. Á Írlandi varð 41.6% samdráttur, 41.3% samdráttur varð á Spáni. Á Ítalíu varð 26.4% samdráttur, 18.6% samdráttur varð í Bretlandi, 10.4% í Þýskalandi og 7.1% samdráttur í Frakklandi. Í nýju Evrópusambandsríkjunum fækkaði nýskráningum í heild um 8.7%. Tékkland stóð nánast í stað (+0.5%) og sömuleiðis Pólland (-0.9%) en fækkun varð 23.3% í Ungverjalandi og 9.0% fækkun varð í Rúmeníu.
Sé litið til þess sem liðið er af árinu í heild varð sem fyrr segir 3,9 prósenta samdráttur í nýskráningum bíla. Í ríkjum Vestur-Evrópu varð samdrátturinn mestur á Spáni, (-21,1%). Þá á Ítalíu (-12.0%) og í Bretlandi (-3.8%). 2,9 prósenta vöxtur varð í Frakklandi og 1,7% vöxtur í Þýskalandi. 9,1 % vöxtur varð í Póllandi, 8,2% vöxtur varð í Tékklandi en 4,9% samdráttur í Ungverjalandi og 3,5% samdráttur í Rúmeníu.
Sú bíltegund sem mest bætir sig er Nissan. Fyrstu sjö mánuði ársins voru 23,9 prósent fleiri Nissanbílar nýskráðir en á sama tímabili í fyrra. Smart var sá bíll sem næst mest jók sinn hlut eða um 22,5 prósent. Á eftir honum kemur svo Jaguar með 18,1 prósent aukningu.
Mestur samdráttur varð hjá Alfa Romeo eða 32,4 próent. Þá kemur Lexus með 24,2 prósent samdrátt. Aðrar tegundir sem samdráttur varð hjá eru Land Rover (-21,6%), Toyota (-12%) og Chrysler (-10,8%).
Mest seldu bílategundirnar í Evrópu það sem af er árinu eru Volkswagen (983.071 bílar), Ford (797.850 bílar) og Opel/Vauxhall (772.780 bílar).