Færri týna bílum sínum í jólastressinu

Hvar í ósköpunum er bíllinn minn?
Hvar í ósköpunum er bíllinn minn?

Þeim Svíum sem týna bílunum sínum í jólainnkaupunum og jólastressinu – gleyma hvar þeir lögðu þeim eða jafnvel gleyma því að þeir fóru að heiman frá sér á bílnum - fer fækkandi ár frá ári.

    Tryggingafélög og lögregla skrá tilkynningar um stolna og horfna bíla og halda tölfræðilega utan um þær. Sænska tryggingafélagið If birtir tölulegar upplýsingar um þessi mál árlega. Samkvæmt þeim fjölgar þessum tilkynningum jafnan verulega á aðventunni og því meir sem nær dregur jólum. Í ljós kemur svo síðar að eigendur stórs hluta horfnu bílanna höfðu einfaldlega steingleymt hvar þeir lögðu bílum sínum. Þeim hafði alls ekki verið stolið.

    En nú ber svo við að þessum tilkynningum um stolna bíla fer fækkandi ár frá ári. Í desember fyrir tveimur árum reyndust 40 prósent tilkynninga um stolna bíla í raun snúast um það að eigendur höfðu gleymt hvar þeir höfðu lagt þeim eða gleymt að þeir fóru á bílnum að heiman í innkaupaleiðangur. Þetta kom í ljós þegar bílarnir fundust aftur mislöngu eftir að þeir höfðu verið tilkynntir stolnir.

    Í desember 2015 virtist minni bíleigenda hafa batnað verulega því að miðað við desember árið á undan mátti rekja 20 prósent tilkynninga um horfna bíla til gleymsku eigenda. Í ár hefur þessum gleymskutilkynningum enn fækkað og útlit fyrir að þær verði varla nema 15 prósent þegar öll kurl verða komin til grafar.