Færri týndu lífi í umferðinni í Svíþjóð 2006

http://www.fib.is/myndir/Car-accident.jpg

Samkvæmt bráðabirgðaslysatölum sænsku vegmálastofnunarinnar létust 431 í umferðarslysum á árinu. Reiknað er með alls 440 dauðaslysum þegar öll kurl koma til grafar og afleiðingar alvarlegra umferðarslysa árið 2006 liggja endanlega fyrir.

Dauðaslysum hefur, eins og í Danmörku og Finnlandi, fækkað jafnt og þétt undanfarin ár og er dánartalan í Svíþjóð árið 2006 sú lægsta síðan 1945. Svíar hafa hins vegar áhyggjur af því að sífellt stærri hluti dauðaslysanna eru skellinöðru- og mótorhjólaslys.
Ingemar Skogö forstjóri stofnunarinnar segir í samtali við Auto Motor & Sport að hið jákvæða sé að dauðaslysunum hefur fækkað umtalsvert í hópi reiðhjólafólks og eldri borgara. Á hinn bóginn veki það hroll að dauðaslysum meðal skellinöðru- og mótorhjólafólks hefur fjölgað. Í fyrra létust 56 ökumenn og farþegar á mótorhjólum á móti 46 árið á undan og 12 ökumenn á skellinöðrum létu lífið í fyrra en átta árið á undan. Jafnframt hefur alvarlega slösuðum eftir mótorhjóla- og skellinöðruslys fjölgað verulega. Á þessu sama tímabili hefur umferð stórra bíla (flutninga- og rútubíla) aukist um rúm þrjú prósent en umferð fólksbíla nánast staðið í stað. The image “http://www.fib.is/myndir/Slys2.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Ingemar Skogö  segir að vegamálastofnunin hafi þegar brugðist við þessu með tillögum um laga- og reglugerðarbreytingar sem lagðar hafa verið fyrir ríkisstjórnina. Markmið þeirra er að gera akstur bæði skellinaðra og mótorhjóla öruggari fyrir ökumenn og aðra vegfarendur. Í því skyni eru m.a. lagðar til breytingar á skráningu hjólanna, hlífðarbúnaður verði skylda og ökukennsla á farartækin verði aukin og efld. Þessar tillögur hafi flestar verið unnar í samvinnu við sænska mótorhjólasambandið SMC. Skogö segir að einnig sé nauðsynlegt að eiga samvinnu við seljendur mótorhjóla um þessi mál. Skellinöðruökumenn séu oft mjög ungir og af þeim sökum sé bráðnauðsynlegt að seljendur mótorhjóla átti sig á og gangist við ábyrgð sinni á því hvaða aldurshópum þeir afhenda þessi farartæki.

24 reiðhjólamenn misstu lífið í umferðarslysum í Svíþjóð í fyrra og hafa aldrei áður verið færri. Næst fæstir urðu þeir árið 2004 – 27. Þriðja besta árið í þessu sambandi var svo 2005 en þá fórust 38 reiðhjólamenn.

50 fótgangandi fórust í umferðinni í fyrra sem er sami fjöldi og árið 2005. Þetta er veruleg breyting frá því sem var í upphafi tíunda áratugarins en þá fórust um það bil þrefalt fleiri fótgangandi í umferðarslysum.

Hvað varðar aldur hinna látnu þá létust sjö börn undir sjö ára aldri en tvö árið 2005. Í aldurshópunum 65 til og með 74 ára og 75 ára og eldri létust samtals 33 á móti 48 árið 2005. Ekki hafa færri í þessum aldurshópum látist í umferðarslysum síðan á stríðsárunum.

Dauðaslysum við árekstur bíla úr gagnstæðum áttum fjölgaði 2006 miðað við 2005 en dauðsföllum í eins bíls slysum fækkaði. Vegamálastjórinn sænski segir að þess vegna verði allir árekstrar bíla úr gagnstæðum áttum rannsakaðir og greindir sérstaklega í því skyni að koma í veg fyrir að slík slys endurtaki sig. Áfram verði líka haldið að fækka markvisst tvístefnuvegum þar sem umferð til gagnstæðra átta er ekki aðgreind. Árið 2006 hefðu vegir þar sem umferð til gagnstæðra átta er aðgreind lengst um 250 kílómetra  og 300 kílómetra lenging til viðbótar yrði á þessu ári.

Bílafloti Svía stækkaði á árinu 2006 um 1,5 prósent. Um síðustu áramót voru fólksbílar 4,2 milljónir, vörubílar 480 þúsund og 14.000 rútur og strætisvagnar. Á sl. 10 árum hefur mótorhjólum fjölgað um helming í Svíþjóð og milli áranna 2005 og 2006 fjölgaði þeim um sjö prósent og eru nú 268 þúsund. Skellinöðrur voru um síðustu áramót 134 þúsund en voru 100 þúsund fyrir ári.