Fæst umferðardauðaslys á Möltu

Samkvæmt bráðabirgðaslysatölum úr umferðinni er Malta það land sem býr við einna öruggasta umferð. Þar urðu 3,7 dauðaslys á hverja 100 þúsund íbúa 2009. Næst öruggasta landið er svo Svíþjóð (3,8 pr. 100 þús.) og í þriðja sætinu er Holland (4,1 pr. 100 þús.). Ísland er ekki á þessum lista en hér urðu 5,4 dauðaslys pr 100 þúsund íbúa þannig að við erum þar með í fimmta sæti ásamt Írlandi og þannig meðal þeirra bestu í þessum efnum.

 Á meðfylgjandi töflu sést hvernig ástandið er hvað varðar dauðaslys í umferðinni í Evrópulöndum. Áberandi er hversu ástandið er slæmt í gömlu Varsjárbandalagsríkjunum. Litháen er í neðsta sætinu en þar urðu 14,8 dauðsföll á hverja 100 þúsund íbúa. Lítilsháttar skárra var svo ástandið í Póllandi, Rúmeníu, Búlgaríu, Grikklandi og Lettlandi. Athygli vekur að af Eystrasaltslöndunum sker Eistland sig úr með „aðeins“ 9,8 dauðsföll pr. 100 þúsund íbúa.

 Lena Erixson vegamálastjóri í Svíþjóð segir í samtali við Auto Motor & Sport í Svíþjóð að á sl. áratug hafi orðið helmings fækkun dauðaslysa í árekstrum ökutækja úr gagnstæðum áttum. Það þakkar hún átaki í því að byggja upp vegi með aðskildum akstursstefnum og einnig árekstursþolnari og öruggari bílum. Um aldamótin voru vegir með aðskildum akstursstefnunm í Svíþjóð samtals um 1.500 kílómetrar. Um síðustu áramót voru slíkir vegir orðnir samtals um 4.200 kílómetrar.

http://www.fib.is/myndir/Trafikdodade.jpg