Fallið frá mislægum gatnamótum við Arnarnesveg

Vegagerðin ætlar að breyta útfærslu fyrirhugaðra vegamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut. Fallið er áformum um mislæg gatnamót en í stað þess verða sett ljósstýrð gatnamót eins og fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Fyrsti áfangi Arnarnesvegar var byggður á milli Fífuhvammsvegar og Rjúpnavegar, annar áfangi var opnaður árið 2016 og var frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi.

Þriðji áfangi, sem nú er fyrirhugaður, er á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík og er um 1,3 km að lengd. Samkvæmt nýju tillögunni verður hringtorg við Vatnsendahvarf, brú yfir Breiðholtsbraut fyrir akreinar og stíga, og tenging við Breiðholtsbraut með umferðarljósum. Núverandi ljósastýrð vegamót við Vatnsendaveg verða felld niður en þó verða þar leyfðar hægribeygjur.

Skipulagsstofnun vann matskýrslu fyrir Arnarnesveg árið 2003. Vegagerðin ætlar að senda fyrirspurn til Skipulagsstofnunar varðandi breytingarnar. Til að draga úr hljóðmengun er gert ráð fyrir 1,5 metra háum hljóðvegg á brú og rampa við Breiðholtsbraut auk endurbættrar hljóðmanar milli nýrra gatnamóta og undirganga milli Jaðarsels og Suðurfells.