Farsímar og SMS taka mannslíf í umferðinni

- Láttu farsímann algerlega vera þegar þú ert að keyra. Þannig eru tilmæli norsku vegagerðarinnar til þarlendra ökumanna. Í Noregi er nú verið að endurskoða öll umferðarlög og reglur sem tengjast nútíma rafeinda- og fjarskiptatækni

- Blaðafulltrúi norsku vegagerðarinnar segir við dagblaðið Aftenposten að þótt fleiri ökumenn en áður séu sektaðir fyrir farsímanotkun í akstri þá sé farsímanotkun ökumanna alls ekki ofarlega á forgangslista hjá lögreglu sem sé miður. Norðmenn geti hæglega tekið sig á í þessum efnum sé þeim almennilega komið í skilning um það að akstur krefst hundrað prósent athygli fólks. Ef nauðsynlegt sé að tala í síma eða senda SMS skeyti beri fólki að stöðva bílinn á meðan.

Í nýjasta tölublaði American Journal of Public Health er greint frá rannsókn tveggja vísindamanna við N. Texas háskólann. Niðurstaða þeirra er sú að 16 þúsund manns hafi farist í umferðarslysum í Bandaríkjunum á tímabilinu 2001-2007 - slysum sem urðu vegna SMS-sendinga ökumanna.

Niðurstaðan er byggð á slysarannsóknum og tölugögnum frá umferðaryfirvöldum í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Gögnin eru samkeyrð með upplýsingum um farsímanotkun og farsímavenjur fólks sem bandarísk fjarskiptayfirvöld hafa safnað saman. Þessi rannsókn háskólamannanna tveggja er fyrsta tilraunin sem vitað er um til að kortleggja og telja þau umferðarslys sem verða vegna farsímanotkunar og meðfylgjand athyglisbrests við aksturinn.

Vísindamennirnir tveir; þeir Fernando Wilson og Jim Stimpson er ekki í vafa: Þeir fullyrða að dauðaslysum í umferð hafi fjölgað mjög í beinu samhengi við stóraukna notkun SMS textaskilaboða. Árið 2001 hafi Bandaríkjamenn sent eina milljón SMS skilaboða á mánuði. 2007 voru SMS boðin orðin 110 milljónir í hverjum mánuði. Það er rúmlega hundraðföldun á sex árum. Samhliða þessu hefur svo slysum þar sem ungir ökumenn eiga í hlut fjólgað mjög, ekki síst þar sem ungir ökumenn eru einir á ferð og aka útaf vegi, aka á vegrið eða inn í umferðina sem á móti kemur, af því þeir voru uppteknir við að skrifa og senda SMS skilaboð akandi á fullri ferð. Eftir að rannsókn þeirra Wilsons og Stimpsons hefur birst hafa 30 ríki Bandaríkjanna ákveðið að banna algerlega SMS sendingar undir stýri.