Fatlaðir ferðalangar

Bert Morris, sem lengi var yfirmaður samgöngu- og ferðamála hjá bifreiðaeigendafélaginu AA í Bretlandi vinnur nú að því að taka saman hvaða reglur og heimildir gilda um bílakort eða bílastöðuskilti fatlaðra í ýmsum löndum veraldar og gildi þeirra á ferðalögum erlendis. Hér er að sjálfsögðu átt við stöðuskiltin sem fatlaðir fá útgefin í heimalöndum sínum og eiga að hafa sýnileg í bílum sínum þegar þeir t.d. leggja þeim í sérmerkt stæði fyrir fatlaða. Bert Morris vinnur nú að útgáfu sérstakrar handbókar um notkun þessara korta á ferðalögum um heiminn og nýtur til verksins tilstyrks FiA og bifreiðaeigendafélaganna. Laurianne Krid, starfsmaður FiA hefur ásamt Bert Morris annast söfnun gagna í nánu samstarfi við bifreiðaeigendaklúbbana í hverju landi fyrir sig, þar á meðal FÍB.

 Þær upplýsingar sem fram munu koma í handbókinni varða einkum tvö meginatriði:

 1.    Þær skulu sýna hvar og hvenær má nota stöðuskiltið. Sem dæmi má nefna að allsstaðar þar sem stöðuskilti fatlaðra eru útgefin mega handhafar þeirra leggja bílum sínum í stæði  sem sérmerkt eru með hvítri táknmynd manns í hjólastól á bláum grunni. Í sumum löndum þurfa fatlaðir ekki að greiða í stöðumæla ef stöðuskilti er í bílum þeirra og í sumum löndum er þeim heimilt að leggja á stöðum sem öðrum er bannað að leggja bílum sínum.

 2.    Í handbókinni mun koma skýrt fram hvaða lönd viðurkenna ekki bílastöðuskilti sem útgefin eru annarsstaðar. Mörg þessi lönd sem viðurkenna ekki erlend stöðuskilti, gefa út í þeirra stað sérstök tímabundin stöðuskilti fyrir fatlaða erlenda ferðamenn.

 Hugmyndin að þessari handbók sem nú er í vinnslu spratt upp úr merkri samvinnu sem AA í Bretlandi og aðalskrifstofa FiA í Brussel áttu á árunum 2000-2005. Þessi umrædda samvinna var fólgin í því að safna upplýsingum um þessi mál og freista þess að fá Evrópusambandslöndin til þess að viðurkenna stöðuskilti fatlaðra hvar svo sem þau væru útgefin. Þetta starf bar góðan ávöxt og upplýsingarnar sem söfnuðust voru meira að segja birtar í bæklingi sem Evrópuráðið gaf út á sínum tíma.

 Grundvallarhugmyndin að baki þessu umstangi öllu er samræming – að sem flest eða öll ríki viðurkenni stöðuskiltið með táknmynd hjólastólsins og fá þau til að samþykkja og undirrita samræmdar reglur um gildissvið og viðurkenni þau skilti sem útgefin eru til fatlaðra í öðrum löndum. Þetta er meira en að segja það og FiA ætlast til þess og vill stuðla að því að reglurnar verði ekki orðin tóm. Lögreglumenn og stöðuverðir þurfa líka, ekkert síður en löggjafinn og embættismennirnir, að vera með það á hreinu að stöðuskilti í erlendum bíl, útgefið í öðru landi, sé jafngilt skilti sem útgefið er í heimalandinu.

Þótt unnið hafi verið ötullega að þessu, þá er það því miður ennþá raunin að sum lönd viðurkenna ekki erlendu stöðukortin og sumsstaðar þar sem þau þó eru viðurkennd í orði, gera lögreglumenn og stöðuverðir ekkert með það heldiur sekta erlenda fatlaða grimmt, jafnvel þvert ofan í útgefnar reglur og lög og leiðrétting getur kostað gríðarlegt umstang og jafnvel málaferli.

 Hin nýja handbók FIA fyrir fatlaða á ferðalögum mun taka á málum af þessu síðastnefnda tagi og hvað þá beri að gera og hvernig skuli brugðist við. Upplýsingarnar í handbókinni verða flokkaðar eftir löndum og heimssvæðum og mest verður áherslan á mikil ferðamannalönd og -svæði eins og Evrópu, Bandaríkin og Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjáland en í framantöldum gilda öll stöðuskildi hvar svo sem þau eru útgefin.  Mjög mikil áhersla hefur verið lögð á að allar upplýsingar séu réttar í handbókinni og þegar hún kemur út, verður farið í það að koma upp sérstakri gagnvirkri vefsíðu á mörgum tungumálum þar sem fatlaðir geta aflað sér upplýsinga og einnig veitt upplýsingar og miðlað eigin reynslu.

 Hvers vegna FIA handbók?

Eitt af meginmarkmiðum FiA er hreyfanleiki fyrir alla. Í mörgum löndum og heimssvæðum er aldurssamsetning íbúanna að breytast á þann veg að öldruðum fer hlutfallslega fjölgandi. Þeir öldruðu bæði þurfa og vilja njóta hreyfanleika í lengstu lög. Samræming laga og reglna um stöðukort fatlaðra samræmast að sjálfsögðu ágætlega meginmarkmiði FiA og bifreiðaeigendafélaganna um hreyfanleika allra.

 Bert Morris segir að vissulega sé líkamleg hrörnun fylgifiskur ellinnar og hún komi bæði niður á hinum aldraða sjálfum en einnig fjölskyldu hans, dætrum og sonum sem hinn aldraði verði meira og meira háður varðandi það að komast ferða sinna. Gott og gilt stöðukort í bíl hins aldraða hvort sem hann er sjálfur ökumaðurinn eða einhver aðstandandi hans, sé þannig mikilvægt hjálpartæki sem auðveldar honum hreyfanleikann og gerir honum mögulegt að sinna erindum sínum og vera frjáls ferða sinna. Með þessu brautryðjendastarfi FiA og aðildarfélaganna hafa þau gert þetta málefni að sínu og tekið frumkvæði í því að bæta líf og lífsgæði fatlaðra og aðstandenda þeirra.

Gert er ráð fyrir því að handbók FIA fyrir fatlaða ferðalanginn verði tilbúin síðar á þessu ári. Hún verður bæði prentuð en einnig aðgengileg á Netinu. Hún verður síðan uppfærð reglulega og aðalhöfundurinn Bert Morris lofar því að allar hugsanlegar villur eða breyttar aðstæður verði jafnharðan leiðréttar þannig að upplýsingarnar verði ætíð eins nýjar og réttar og nokkur kostur er.

Handbókin mun verða fáanleg hjá FÍB. Jafnframt verður „linkur“ inn á Netútgáfu hennar aðgengilegur af heimasíðu FÍB. Við munum greina frá þessu á fréttavef FÍB þegar nær dregure útgáfu handbóklarinnar.