FDM í Danmörku eignast akstursæfingasvæði

http://www.fib.is/myndir/ThomasMoeller.jpg
Thomas Møller-Thomsen framkvæmdastjóri FDM tv. undirritar kaupsamning um KTI.

Fyrirkomulagi sveitarstjórnarmála í Danmörku hefur nú verið breytt á þann hátt að ömtin sem voru einskonar stórsýslur, hafa nú verið lögð niður. Öllum rekstri á vegum amtanna hefur því verið komið á annarra hendur, ýmist einkaaðila eða sveitarfélaga. Hið gamla Hróarskelduamt hefur um áratugi rekið aksturstæknistofnunina Køreteknisk Institut Roskilde (KTI) þar sem ökunemar og aðrir þeir sem vilja fríska upp á aksturskunnáttu sína hafa getað lært ýmis aksturstæknileg atriði eins og akstur í hálku inni á lokuðu svæði stofnunarinnar. Systurfélag FÍB í Danmörku; FDM hefur nú keypt KTI  og hyggst reka það áfram með svipuðum hætti og amtið gerði. FDM tekur við rekstri KTI um næstu áramót.

Í frétt frá FDM segir að kaupin á KTI falli mjög vel að þeim þætti í starfi FDM sem lýtur að umferðaröryggismálum og sé mikilvæg viðbót við þá starfsemi. FDM á fyrir keppnis- og kennslusvæðið Jyllandsringen á Jótlandi og með kaupunum á KTI verður FDM með samskonar starfsemi bæði vestan og austan við Stórabelti.

KTI hefur lengi verið staður þar sem ökunemar hafa fengið þjálfun í akstri við flestar aðstæður sem upp geta komið á vegum úti. Þar hefur framið fram bæði bókleg og verkleg kennsla og þjálfun bæði nýrra og eldri ökumanna og það er meginástæða þess að FDM ákvað að kaupa KTI. Félagið hyggst halda áfram þeirri starfsemi sem þar hefur farið fram til þessa en efla hana og bæta í þágu bætts umferðaröryggis. Félagsmenn FDM eru um 230 þúsund og munu þeir njóta forgangs og sérkjara í kennslu og þjálfun.

FDM hyggst einkum nýta KTI til ökukennslu og til akstursþjálfunar. KTI var komið á fót árið 1985. Megin-akstursbrautin er 2,4 km löng og við hana eru þrjár stórar hálkubrautir. Á hverju ári sækja 15 þúsund manns námskeið hjá KTI.

http://www.fib.is/myndir/KTI-loggur.jpg http://www.fib.is/myndir/KTI1.jpg
Hjá KTI fá bæði lögregla, atvinnuökumenn og almenningur þjálfun í akstri. 

http://www.fib.is/myndir/KTI-luftfoto.jpg