FDM til London á Tesla rafbíl

Systur félag FÍB í Danmörku, FDM, tekur um þessar mundir þátt í rafbílaverkefni með bæjarfélaginu Høje-Taastrup, sem er nokkurnveginn miðja vegu milli Kaupmannahafnar og Roskilde. Høje-Taastrup kemur að verkefninu sem eitt margra sveitarfélaga og svæða sem einu nafni nefnast Norðursjávarsvæðið, og hefur fengið Danska bifreiðaeigendafélagið FDM til liðs við sig. Hlutverk FDM í þessu er það að staðreyna með hlutlausum hætti notagildi rafbíla og annarra rafknúinna farartækja. Í tengslum við verkefnið hefur FDM sett upp sérstaka heimasíðu þar sem m.a. er reiknivél sem áhugasamir einstaklingar eða fyrirtækjarekendur geta sett inn upplýsingar um eigin bílanotkun og fengið útkomu sem segir til um það hvort rafbíll geti dugað þeim eða ekki.

Það hefur lengi verið vitað að rafbílar henta mörgum ágætlega í akstri innan þéttbýlis þar sem akstursvegalengdir eru ekki of langar. En þegar að því kemur að aka lengri leiðir getur málið vandast. Það ætla starfsmenn FDM nú að skoða sérstaklega og lögðu því af stað í morgun, mánudaginn 7. apríl af stað á þremur Tesla S rafbílum frá Høje-Taastrup áleiðis til London. Leiðin liggur þvert yfir Sjáland, yfir Stórabeltisbrúna yfir á Fjón og yfir Litlabeltsibrúna til Jótlands. Þá er ekið til suðurs til Hamborgar í Þýskalandi. Þar er sveigt í suðvesturátt og ekið til Calais á Ermarsundsströnd Frakklands. Þegar svo til Englands er komið verður ekið til London. Alls er ökuleiðin um 1.300 kílómetrar. Aksturstilraunin mun leiða í ljós í fyrsta lagi hversu vel drægistölur framleiðanda bílanna standast (480 km) og í öðru lagi hversu oft þarf að hlaða þá á leiðinni og hvernig það á eftir að ganga að komast í hleðslupósta.

Ökumennirnir munu greina jafnharðan frá hvernig ferðin gengur og því hvað upp kann að koma. Það gera þeir m.a. á Facebook og Twitter.