FIA leggst gegn dísilskattinum

Nú hefur Evrópudeild FIA, heimssamtaka bifreiðaeigendafélaga, tekið afstöðu gegn sérstökum orkuinnihaldsskatti á dísilolíu sem sagt er frá í fréttinni hér á undan þessari. Í frétt frá FIA segir að þótt það sé vissulega markmið skattatillögunnar að jafna út samkeppnismismunun milli orkugjafa, þá felist í henni kolröng skilaboð til almennings bæði hvað varðar orkuverð og CO2 útblástur.

„Fólk hefur markvisst verið hvatt til að fá sér dísilbíla undanfarinn áratug vegna þess að þeir eru sparneytnari og menga minna. Það er því fráleitt að ætla nú að refsa þeim neytendum sem völdu dísiltæknina einmitt vegna þessara kosta,“ segir Jacob Bangsgaard, nýráðinn framkvæmdastjóri Evrópudeildar FIA. Í henni eru 100 bifreiðaeigendafélög, þar á meðal FÍB, og meðlimir eru 36 milljónir talsins.

Jacob Bangsgaard segir að meirihluti, eða allt að 75 prósent evrópskra bílakaupenda í sumum Evrópulöndum hafi valið dísilbíla þrátt fyrir að þeir væru dýrari í innkaupum, vegna þess að þeir sáu fram á ódýrari rekstur dísilbílsins. „Við skulum heldur ekki gleyma því að hærri kostnaður í landflutningum með vöru- og sendibílum mun leiða til hærra vöruverðs,“ segir Bangsgaard. Hann minnir jafnframt á að miklar framfarir hafi orðið í þróuninni og nýjustu dísilvélar séu afar sparneytnar og hagkvæmar og eyði um 30% minna eldsneytismagni en tilsvarandi bensínvélar og gefi að sama skapi minna frá sér af CO2. Hin fyrirhugaða dísilolíuskattlagning muni þannig hafa þveröfug áhrif við það sem til er ætlast auk þess sem frekari framþróun dísilvéla muni stöðvast í Evrópu. Afleiðingar þessarar skattlagningar verði því öfugar við það sem ætlast er til.

FIA er þeirrar skoðunar að skattatillagan sé illa ígrunduð og aldrei eigi að æða út í skattabreytingar nema að mjög vel athuguðu máli og ekki fyrr en búið er að vega og meta allar hugsanlegar afleiðingar þeirra. Markmiðið hljóti ávallt að vera það gera samgöngurnar sjálfbærari og öruggari, nýtnari á orkuna og mengunarminni. Að þessum markmiðum eigi viturleg skattlagning að stuðla.