FIA og alþjóða ólympíuhreyfingin í samstarf

Alþjóðasamtök bifreiðaeigenda, FIA, og Alþjóða ólympíuhreyfingin, IOC, hafa  undirritað samstarfssamning  sem lítur að því að hægt verði að nálgast efni FIA, svo sem á mótorsporti og vegaöryggi. Ólympíska stöðin verður aðgengileg á heimasíðu IOC, í gegnum snjallforrit og á sjónvarpsstöð hreyfingarinnar. Samningurinn er talinn geta ýtt undir meira áhorf og fleiri styrktaraðila til framtíðar litið.

Það voru þeir Jean Todt, forseti FIA, og Thomas Bach, forseti, IOC, sem skrifuðu undir samninginn í höfuðstöðvum IOC í Lausanne í Sviss á dögunum.  FIA lýsir yfir ánægju með þetta samstarf sem gerir samtökin öflugri í íþróttasamfélaginu, skapi ný tækifæri og nái um leið til nýrra aðdáenda mótoríþrótta.

,,Þetta er líka tækifæri fyrir okkur til að vinna betur saman á sviði vegaöryggis á allan hátt og miðla upplýsingum til almennings,“ segir Jean Todt forseti FIA.

,,Við erum mjög spennt fyrir þessu aukna samstarfi við FIA á vettvangi ólympíuvettvangsins. Þetta gefur svigrúm til betri kynningar og við hlökkum til samstarfsins. Markmiðið er ennfremur að auka áhrif mótoríþrótta og ná til nýrra markhópa víða um heim,“ segir Thomas Bach forseti IOC.

FIA er heimssamtök bifreiðaeigendafélaga og bifreiðaíþróttafélaga. Flestöll systurfélög FÍB eru sameinuð innan 1. svæðissambands FIA og FÍB er þeirra á meðal. Höfuðstöðvar 1. svæðissambands FIA eru í Brussel.  Innan 1. svæðissambandsins eru 111 bifreiðaeigenda- og ferðafélög með 38 milljón félagsmenn. Sambandssvæðið nær yfir alla Evrópu, Mið-Austurlönd og Afríku. FIA er málsvari félagsmanna þátttakenda í umferð af hverskonar tagi, hvort heldur þeir eru akandi, hjólandi, gangandi eða sem farþegar í hverskonar almannasamgöngum.

Meginmarkmið FIA er að tryggja að allar samgöngur séu sem öruggastar, þær séu skilvirkar, sjálfbærar og á hóflegu verði. Þess vegna vinnur 1. svæðissamband FIA og aðildarfélög þess að umferðaröryggismálum, neytendavernd og sjálfbærum samgöngum.