Fiat 500 frá Mexíkó

Bílaverksmiðja Chryslers skammt frá Mexíkóborg fær nú það verkefni að byggja smábílinn Fiat 500 fyrir Bandaríkja- og S. Ameríkumarkað.  Þessi bráðskemmtilegi bíll sem ekki hefur enn komist inn á íslenska bifreiðaskrá er mjög vinsæll í Evrópu og nýjasta viðbótin við hann þar er ný 95 ha. MultiJet II dísilvél.

 Þessi nýja MultiJet II vél fyrir litla Fiatinn er 1,3 lítrar að rúmtaki, 80 ha. við 4 þús sn./mín. Vinnslan er 200 Nm/1500 sn á mín. Hún er ein fyrsta dísilvélin með start-stopp búnaði og leysir af hólmi eldri dísilvélina í Fiat 500 og Fiat Panda. Sú var 75 hö og með henni var Fiat 500 12,5 sekúndur í hundraðið. Með þeirri nýju er hann 10,7 sek í hundraðið og hámarkshraðinn er 180 km á klst. En þrátt fyrir meira afl er CO2 útblástur þeirrar nýju minni en eldri vélarinnar, eða aðeins 104 g/km. Sú eldri blés frá sér 110 g/km.

Fiat 500 verður svo sem ekki neitt tryllitæki með þessari nýju dísilvél en þó með fyllilega nóg afl til daglegs brúks og mjög hóflega eyðslu eða aðeins 3,9 lítra á hundraðið og mengun langt innan marka Euro 5 staðalsins.

 Framleiðslan á Fiat 500 í Mexíkó mun hefjast í desembermánuði og byggðir verða 130 þúsund bílar á ári. Þeir verða til sölu í þéttriðnu sölukerfi Chryslers í N. og S. Ameríku. Einungis bensínvélar verða í boði á þessum mörkuðum.

 Nú er verið að undirbúa verksmiðjuna og stilla hana af og endurnýja búnað svo framleiðsla á Fiat 500 geti hafist á tilætluðum tíma. Tekið hefur verið 550 milljón dollara lán til endurbótanna frá mexíkóskum fjárfestingarsjóðum. Sergio Marchionne er bjartsýnn á gengi smábílsins í Bandaríkjunum þrátt fyrir að Bandaríkjamenn sitji enn flestir við þann keip sinn að vilja helst aka um á stórum bílum, ekki síst pallbílum. Hann segir að það sé mikið verkefni að takast á við að stækka þann hóp sem velur fremur litla og hagkvæma bíla. Fiat 500 eigi vissulega góða möguleika.