Fiat 500 hátíð í Torino og 30 ítölskum borgum

 The image “http://www.fib.is/myndir/Fiat500-nyr.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Mikið Fiat 500-æði gengur nú yfir Ítalíu því að í dag, 4. júlí eru 50 ár síðan smábíllinn Fiat 500 kom fram á sjónarsviðið og í dag er nýr bíll með sama nafni frumkynntur í Torino, heimaborg Fiat á Ítalíu. Hátíðin í Torino nær hápunkti í kvöld kl. átta að íslenskum tíma með mikilli sýningu á aðaltorgi borgarinnar. Henni stjórnar Marco nokkur Balich sem stýrði opnunar- og lokahátíðum vetrarólympíuleikanna í Torino í febrúarmánuði sl.  Hátíðahöld halda svo áfram næstu tvo daga í Torino og 30 öðrum ítölskum borgum.

Fiat 500 er sá bíll sem kom Ítalíu á fjögur hjól á árunum eftir stríð, eða frá 1950-1960. Alls var hinn klassíski Fiat 500 smábíll framleiddur í 18 ár og í 3,9 milljónum eintaka.

Þegar þetta er skrifað eru borgarbúar og gestir Fiat 500 hátíðarinnar í Torino, þeirra á meðal sjö þúsund boðsgestir frá 63 löndum, að hita sig upp fyrir stórsýninguna í kvöld. Meðal þeirra eru um þúsund blaðamenn auk umboðs- og þjónustuaðila fyrir Fiat, listamenn og frægðarfólk, stórnmálamenn og stórhöfðingjar úr viðskiptalífinu.

Séð hefur verið til þess að almenningur þurfi ekki að missa af neinu því að risaskjám hefur verið komið upp á flestum stærri torgum borgarinnar auk þess sem ítalska sjónvarpsrásin Canale 5 sýnir beint frá atburðinum. Þá geta allir sem eru með góða Nettengingu fylgst með í tölvunni sinni á slóðinni www.fiat500.com. Erfitt getur þó reynst að ná sambandi við þessa heimasíðu vegna gríðarlegs álags.

Klukkan 09.00 í fyrramálið verður alþjóðlegur blaðamannafundur í Torino þar sem blaðamenn geta fræðst meir um Fiat 500, en margir þeirra hafa þegar fengið bílinn til reynsluaksturs. Í fyrramálið verður einnig opnuð þar stórsýning á Fiat 500 bílum þar sem gefur að líta yfir 800 gamla bíla af tegundinni hvaðanæva úr Evrópu. Sérstakt Fiat 500 frímerki hefur verið gefið út og sex færanleg pósthús hafa verið sett á fót til að selja sérstök Fiat 500 fyrsta dags umslög með rétta frímerkinu á auðvitað.