Fiat 500 og Audi A1 sem rafbílar

Fleiri og fleiri bílasmiðjur virðast nú vera að vinna í svipuðum anda og GM með sinn Chevrolet Volt/Opel Ampera, að byggja rafbíla með innbyggðri rafstöð. Þessir bílar, eins og fyrrnefndir GM bílar, ganga fyrir rafmagni en þegar lækkar á geymunum fer rafstöðin í gang og straumurinn frá henni knýr bílinn.

Miklar vonir eru nú bundnar við það að léttir líþíum-rafgeymar geri rafbíla senn að raunhæfum valkosti við bensín og dísilbíla. En slíkir geymar eru enn sem komið er mjög dýrir og óvissa er um endingu þeirra. Sem dæmi um verð geymanna þá tók iðnaðarráðherra við nýjum rafbíl í síðustu viku. Þrátt fyrir að vera undanþeginn vörugjöldum við innflutning kostar slíkur bíll vel á tíundu milljón króna og er verð geymanna um 60 prósent upphæðarinnar.

http://www.fib.is/myndir/A1-etron.jpg
Audi A1 e-tron.

Til að ná sæmilega góðu drægi í rafbíl þarf augljóslega að hafa í honum talsvert stóra rafgeymasamstæðu og meðan fjöldaframleiðsla líþíumgeyma er enn á frumstigi helst verð þeirra mjög hátt auk þess sem óvissa er um endinguna. Bílahönnuðir og bílasmiðjur huga af þessum sökum stöðugt meir að því að byggja rafbíla með ekki stærri (og þar með ódýrari) geymasamstæðu en svo að hún dugi til daglegs innanbæjaraksturs sem er vel innan við 100 km hjá flestum. En ef lengra skal haldið fer rafstöðin í bílnum sjálfkrafa í gang þegar geymarnir eru að verða tómir.

Fjölmargar bílasmiðjur um alla Evrópu vinna við hverskonar breytingar á fjöldaframleiddum bílum, m.a. við að breyta þeim í rafbíla. Nú hefur eitt þeirra; FEV í Þýskalandi breytt Fiat 500 í rafbíl og byggt inn í hann rafstöð sem knúin er Wankelmótor. Bíllinn kemst 80 kílómetra á geymarafmagninu en þegar rafstöðin tekur við getur bíllinn haldið áfram og er heildardrægi hans þar til bensínið klárast alls 300 kílómetrar.

Að nota lítinn Wankelmótor í rafstöðina í bílnum er nokkuð sérstakt, en hið skynsamlega í því er auðvitað sú staðreynd að Wankelvél er miklu fyrirferðarminni en hefðbundin bílvél með tilsvarandi afli.

Aðrir kostir Wankelvélarinnar eru þeir að hún hefur mjög vítt snúningssvið, er alveg laus við titring, létt og síðast en ekki síst einfaldari og ódýrari í framleiðslu en hefðbundnar bílvélar. Þessa kosti Wankelvélarinnar hefur þýskt fyrirtæki sem heitir Aixro lengi nýtt sér, en fyrirtækið byggir Go-Kart bíla og vélar fyrir ýmis smátæki og jafnvel svifdreka.

Þegar FEV hóf að breyta Fiat 500 í rafbíl var því  leitað til Aixro með það að setja saman rafstöð fyrir bílinn sem knúin væri Wankelvél. Þar sem Fiat 500 er ekki stór bíll var leitast við að eyða sem allra minnstu af rými hans í rafbúnaðinn til að þurfa ekki að ganga neitt á hið takmarkaða farangursrými sem í bílnum er. Þessvegna er rafhlöðusamstæðan lítil um sig og drægi hennar auðvitað í samræmi við það. Og til að spara plássið enn frekar hefur upprunalegi bensíntankurinn verið minnkaður um 2/3 eða niður í það að taka einungis 12 lítra en það dugar Wankel-rafstöðinni til að framleiða straum til 220 km aksturs. Ef lagt er af stað með full hlaðna rafgeymasamstæðuna og 12 lítra af bensíni á tanknum kemst maður um 300 kílómetra og CO2 útblásturinn er 80 grömm á kílómetrann að meðaltali. Frumgerð rafmagns-Fiatsins var svo sýnd fyrir skömmu á bílaþingi í Vínarborg í Austurríki sem nefnist Vienna Motor Symposium. Þar vakti bíllinn mikla athygli gesta og löng röð myndaðist af fólki sem vildi reynsluaka bílnum.

Nú greina þýskir fjölmiðlar frá því að Audi sé nánast tilbúinn í fjöldaframleiðslu með nýja smábílinn A1 með þessari sömu tækni; það er að segja sem rafbíl með innbyggðri rafstöð um borð sem knúin er Wankelvél.  Rafmótorinn í þeim bíl er 102 hö, vibragðið er 10,2 sek í hundraðið og hámarkshraðinn er 130 km á klst.