Fiat/Chrysler-samningurinn frágenginn



Fulltrúar Chrysler Group LLC og Fiat undirrituðu fyrir stundu samning um samvinnu fyrirtækjana á heimsvísu. Í raun þýðir samningurinn að Fiat yfirtekur eignir og rekstur Chrysler. Eftir úrskurð hæstaréttar Bandaríkjanna var síðustu hindruninni fyrir samrunanum rutt úr vegi og menn létu ekki lengi bíða eftir sér og undirrituðu samstarfssamningana fáeinum klukkustundum eftir uppkvaðningu hæstaréttarúrskurðarins.

Réttar fimm vikur eru síðan Chrysler fékk greiðslustöðvun. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur nýtt fyrirtæki; Chrysler Group verið stofnað og samningurinn sem nú hefur verið undirritaður er milli þess og Fiat samsteypunnar. Hann þýðir að nú getur framleiðsla og önnur starfsemi Chryslers hafist að nýju undir yfirstjórn Sergio Marchionne forstjóra Fiat og Robert Kidder sem verður formaður nýrrar níu manna stjórnar Chrysler.

Fiat tilnefnir strax þrjá menn í hina nýju stjórn en bandaríska ríkisstjórnin fjóra. Þeir tveir sem upp á vantar verða skipaðir síðar. Bandaríkjastjórn verður fyrst um sinn eigandi átta prósenta hlutafjár í Chrysler og kanadíska ríkisstjórnin á tveggja prósenta hlut. Stærstan hlut á stéttarfélag bandaríska bílaiðnaðarins; UAW. Næst stærsti hluthafinn er svo Fiat sem á 20 prósent en hefur heimild til að auka hlut sinn síðar þegar Chrysler Group hefur endurgreitt þau opinberu lán sem bandarísk stjórnvöld hafa veitt fyrirtækinu.  Fiat leggur enga beinharða peninga í Chrysler heldur er framlag Fiat tækniþekking og kunnátta í því að búa til neyslugranna bíla, ekki síst smábíla og sparneytnar bílvélar.

Með þessum samningi milli Chrysler og Fiat er í raun nýtt, risavaxið alþjóðlegt bílafyrirtæki orðið til. Í Bandaríkjunum eru starfsmenn Chrysler  38 þúsund en 16 þúsund í öðrum heimshlutum, þar á meðal Evrópu, eða alls 54.000. Bílaframleiðslan mun fara fram bæði í Evrópu og Ameríku. Fyrir liggur að stóraukin áhersla verður lögð á framleiðslu minni og eyðslugrennri bíla í Ameríku en áður hefur verið gert hjá Chrysler.