FÍB á þakkir skildar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tók sér hlé af ríkisstjórnarfundi í gærmorgun til að vera viðstaddur upphaf fundar FÍB með Michael Dreznes á Hótel Sögu í gærmorgun. Ráðherra ávarpaði fundin og fer ávarp hans hér á eftir:

„Félag íslenskra bifreiðaeigenda á skildar þakkir fyrir að eiga forgöngu um EuroRAP – matið á vegakerfinu sem veitir samgönguyfirvöldum ákveðið aðhald og bendir á galla og brotalamir sem áhætta getur verið fólgin í.

Forráðamenn FÍB hafa verið óþreytandi í því að halda þessu verkefni gangandi og þar er á engan hallað þó ég nefni sérstaklega Ólaf Guðmundsson varaformann og verkefnisstjóra á þessu sviði. Það er oft erfitt sambílið milli hins opinbera og hinna frjálsu samtaka sem veita aðhald. Ég held að það sé ágætur kokkteill. Vegagerðin hefur að sönnu sinnt þessu málum mjög vel líka – öllu öryggisstarfi og þar eru menn vakandi öllum stundum gagnvart þessum málum. En FÍB hefur að auki komið með mjög mikilvægt aðhald sem við kunnum mjög vel að meta í innanríkisráðuneytinu og Vegagerðin hefur margoft sagt við mig að þar sé einnig samsvarandi skilningu þótt einhverntíman kunni einhver núningur eðli málsins samkvæmt að verða uppi.

Með hugtakinu verndandi vegir erum við að horfa á hvaðeina í vegakerfinu sem getur orðið okkur til bjargar ef eitthvað fer úrskeiðis. Og það kemur fyrir að eitthvað fer úrskeiðis. Búnaður í bílum getur bjargað okkur að vissu marki – öryggisbeltin, örygispúðinn, læsivarðir hemlarnir, spólvörn, skrikvörn og hvað þessar góðu nýjungar nú allar heita.

Vegirnir, samgöngumannvirkin og umhverfi þeirra er síðan hitt sviðið þar sem huga þarf að svo mörgu sem verið getur til verndar og þarf að vera í lagi. Það er ekki nóg að leggja góða vegi ef við setjum ekki upp vegrið þar sem það á við, ef við gætum þess ekki að öryggissvæðin séu fyrir hendi, að ljósastaurar séu af viðurkenndri gerð og ef ekki dregið úr áhættu vegna hindrana við veginn svo ég nefni nokkur dæmi.

Vegagerðin og þeir aðrir sem hanna vegi og önnur samgöngumannvirki eru meðvitaðir um þessa hugmyndafræði eins og ég áður gat um. Við höfum kannski ekki lagt nógu mikla áherslu á hana fyrr en á allra síðustu árum og ég held það megi að vissu leyti þakka það Euro RAP matinu. Þar er dregin saman margskonar og ítarleg skráning upplýsinga um vegakerfið og þar er bent á veikleika sem oft er unnt að lagfæra með litlum tilkostnaði.

Vegakerfi okkar er hins vegar væði víðfeðmt og ýmsir kaflar þess komnir til ára sinna þannig að á því eru ýmsir annmarkar sem við vitum af og vinnum skipulega að því að bæta úr. Margt er hins vegar í mjög góðu horfi þar sem eru þau mannvirki sem yngst eru í vegakerfinu og ég vil láta þess getið að þar sem eru brotalamir þá hefur Vegagerðin margoft, hennar fulltrúar og sérfræðingar margoft látið mig heyra hve mikil þörf sé á úrbótum. En þá þarf að hofra til fjárveitingavaldins sem þá þarf að láta fé af hendi rakna svo unnt sé að bæta úr, þannig að oft eru menn að hafa Vegagerðina fyrir rangri sök þegar beina ætti sjónum og hugsanlega spjótum að mönnum eins og þeim sem hér stendur í pontunni, og eru raunverulega ábyrgir.

Þá vil ég nefna að starfshópurinn um áratug aðgerða í umferðaröryggi – Decade of Action, er nú á sínu öðru starfsári og í vor á ég von á nýjum tillögum frá hópnum með enn fleiri ábendingum um hvar við þurfum að grípa niður í umferðarörygginu. Innan hópsins hafa starfað undirhópar um hin ýmsu svið og einn hópurinn hefur fjallað um innviðina, öryggi vegakerfa og hönnun og á ég von á að þar komi eitt og annað fram sem máli skiptir á þessum sviðum.

Ég held að það sé mjög vel til fundið að fá erlenda aðila til þess að hvetja okkur og gefa okkur innsýn í það sem er að gerast á erlendri grundu og eins og ég gat um, inspírasjón líka – að hvetja okkur til dáða. Ég hef átt þess kost að sitja ráðstefnu erlendis um samgöngumál þar sem ég sat bæði aðalfund og ýmsar málstofur og tók þátt í þeim og hlýddi á okkar fulltrúa eins og vegamálastjóra o.fl stýra málstofum. Við vorum m.a. með myndarlegan sýningarbás og menn komu þar til að fræðast af okkur og okkar fólk til að fræðast af öðrum. Ég held að við höfum mjög gott af því að taka þátt í lifandi samstarfi hvað þetta snertir. Þessvegna held ég að það sé vel til fundið að fá góða sérfræðinga erlendis frá ti að færa okkur upplýsingar.“