FÍB alfarið á móti vegatollum

Stjórn Félags íslenskra bifreiðaeigenda mótmælir harðlega hugmyndum  um vegatolla á megin vegi  út frá höfuðborgarsvæðinu og auknum álögum  á bifreiðaeigendur.

FÍB mótmælir eindregið hugmyndum um tollavegi út frá höfuðborgarsvæðinu.  Þessar hugmyndir koma fram á sama tíma og stjórnvöld ganga freklega fram við að stórauka skatta á notkun heimilisbílsins.  FÍB telur ranglátt og fráleitt að nauðsynlegum úrbótum  í  vegamálum á Suðvesturhorninu fylgi nýjar skattaálögur á íbúa svæðisins.  

Bensín- og dísilskattar hafa hækkað tvisvar á liðnum 10 mánuðum.  Í frumvarpi til fjárlaga 2010 er gert ráð fyrir að hækka eldsneytisskatta frá og með áramótum um 10% í viðbót og að auki að hækka bifreiðagjald um 10%.    Nái fjárlagafrumvarpið óbreytt í gegn mun það hafa í för með sér að skattar ríkisins á hvern lítra af bensíni hafa hækkað um 25.73 krónur á einu ári.  Bensínkostnaður meðal fólksbíls  vegna hækkunar skatta mun þá vera yfir 50 þúsund krónum hærri yfir eitt ár samanborið við desember 2008.  Sami kostnaður vegna jeppa hækkar um meira en 70 þúsund krónur.  Ofan á þessa hækkun bætist hækkandi heimsmarkaðsverð á eldsneyti og aukinn kostnaður vegna stórfellds hruns íslensku krónunnar á liðnu ári.    

Bensínskattar:

Á hvern bensínlítra frá dælu leggur ríkið eftirfarandi skatta:  Sérstakt vörugjald sem er 20,44 krónur, bensíngjald upp á 37,07 krónur, flutningsjöfnunargjald sem er 0,36 krónur og loks 24,5% virðisaukaskattur sem leggst á innkaupsverð með sköttum og álagningu.  Virðisaukaskatturinn af núverandi (30. október 2009) sjálfsafgreiðsluverði bensínlítra á þjónustustöð upp á 191 krónu er 37,59 krónur.  Samtals eru skattar af hverjum bensínlítra frá dælu 95,46 krónur. 

Dísilskattar:

Skattar á hvern lítra af dísilolíu eru olíugjald 51,12 krónur, flutningsjöfnunargjald 0,72 krónur og loks virðisauki á heildarverðið.  Miðað við núverandi sjálfsafgreiðsluverð á þjónustustöð, 187,80 krónur,  þá eru skattar á hvern dísillítra samtals 91,80 krónur og þar af er virðisaukaskattur 36,96 krónur.