FÍB kynnir formúlu fyrir kílómetragjald á notkun ökutækja

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, leggur til að kílómetragjald komi í stað núverandi skattlagningar á eldsneyti ökutækja. Með kílómetragjaldi myndu rafmagnsbílar byrja að borga fyrir afnot af vegakerfinu. Kílómetragjald gerir ríkinu kleift að hætta við áform um afar óhagkvæma innheimtu vegatolla og jarðgangagjalda. Þetta kom fram á kynningarfundi sem FÍB efndi til með blaða- og fréttamönnum sem haldinn var í húsakynnum félagsins í morgun.

Gjald á hvern ekinn kílómetra fari eftir losun koltvísýrings og þyngd viðkomandi bíls. Þannig endurspegli gjaldið áhrif bílsins á umhverfið og álag hans á vegakerfið.

Á vefsíðu FÍB geta bíleigendur séð útreikning kílómetragjaldsins fyrir ökutæki sín miðað við áætlaðan akstur.

Losun koltvísýrings og þyngd ökutækis ráði kílómetragjaldinu

  • Kílómetragjald að tillögu FÍB er hugsað sem hvati til orkuskipta í samgöngum. Losun koltvísýrings (CO2) frá ökutækjum er því áhrifaþáttur í gjaldinu. Engin eða lítil losun þýðir lægra gjald og meiri losun hærra gjald.
  • Þyngd ökutækja hefur mest að segja um slit vegakerfisins og tekur kílómetragjaldið því einnig mið af þeim þætti.
  • Kostnaður af því að nota bílinn verði lítið breyttur fyrir langflesta bíleigendur því skattar á eldsneyti og bifreiðagjald myndu falla niður við upptöku kílómetragjaldsins. Þeim sem taka þátt í kostnaði við vegasamgöngur mun hins vegar fjölga.
  • FÍB leggur til að Skatturinn sjái um innheimtu gjaldsins hjá eigendum ökutækja, ýmist í samræmi við áætlun eða álestur af kílómetramæli. Innheimta verði með svipuðu móti og fyrir rafmagn og hita.

Formúlan fyrir kílómetragjaldinu

Grunnforsendur formúlunnar byggjast á veginni meðallosun koltvísýrings (CO2)allra ökutækja á Íslandi, sem er 152,2 g/km og veginni heildarþyngd allra ökutækja, sem er 2.870 kg. Tölurnar byggja á upplýsingum frá Samgöngustofu. Með þessum grunnforsendum og ákveðnum margföldunarstuðlum verður til kílómetragjald sem FÍB telur að endurspegli með sanngjörnum hætti raunveruleg áhrif af notkun viðkomandi bíls á umhverfið og vegakerfið.

Reikniformúlan miðast við að kílómetragjaldið skili sömu tekjum í ríkissjóð af notkun ökutækja og áformuð eru í fjárlögum fyrir 2023, eða um 50 milljörðum króna.

Til að reikna kílómetragjaldið er annars vegar deilt með 152,2 í CO2 losun viðkomandi bíls og útkoman margfölduð með 6 til að finna út umhverfisgjald. Hins vegar er deilt með 2.870 í heildarþyngd viðkomandi bíls og margfaldað með 5 í til að finna út álagsgjald. Samanlagt mynda umhverfisgjaldið og álagsgjaldið kílómetragjaldið. Reikniformúlan gerir bíleigendum kleift með einföldum hætti að reikna út gjaldið miðað við ekna kílómetra, enda eru upplýsingar um CO2 losun og heildarþyngd bíla aðgengilegar hjá Samgöngustofu.

 

Formúla Kílómetragjald   Formúla Kílómetragjald

 

Fyrir 10 þúsund kílómetra á ári yrði kílómetragjaldið Ford Focus bílsins 88.000 kr, eða 7.333 kr á mánuði. Fyrir 15 þúsund kílómetra akstur yrði kílómetragjaldið 132.000 kr, eða 11.000 kr á mánuði. Á móti lækkar eldsneytiskostnaður og bifreiðagjald fellur niður.

Núverandi tekjustofnar ríkisins af notkun ökutækja

Núverandi tekjustofnar ríkisins af notkun ökutækja eru að mestu skattar á jarðefnaeldsneyti. Þar á meðal má nefna vörugjöld af bensíni, kolefnisgjald, olíugjald af dísilolíu og virðisaukaskatt. Bifreiðagjald er lagt á alla bíla og innheimt tvisvar á ári. Þessi gjöld geta öll fallið inn í kílómetragjaldið. Verð á bensíni og dísilolíu myndi lækka á móti. Á lítra af bensíni og dísilolíu nema álögur ríkisins nú tæpum 100 krónum. Engir skattar eru lagðir á afnot rafknúinna bíla af vegakerfinu og orkukostnaður þeirra er mun lægri.

Á árinu 2023 gerir ríkið ráð fyrir 10,2 milljarða króna tekjum af vörugjaldi af innflutningi nýrra ökutækja. FÍB leggur ekki til að vörugjaldið verði hluti af kílómetragjaldinu.

Kílómetragjaldið fjármagni vegaframkvæmdir

Uppi eru áform um tugmilljarða króna nauðsynlegar nýframkvæmdir í vegakerfinu víða um land á næstu árum. FÍB telur að fjármögnun þessara framkvæmda geti að mestu farið fram gegnum kílómetragjaldið og komið í stað hugmynda um afar kostnaðarsama innheimtu vegatolla og jarðgangagjalda.

Útfærsla og innheimta

Kílómetragjaldið verði innheimt miðað við áætlun/álestur, ekki ósvipað og fyrir rafmagn og hita. Bíleigendum verði boðið að gera áætlun sem er leiðrétt við álestur. Álestur getur farið fram við árlega skoðun, á verkstæðum, sem eigin álestur (myndataka af mælaborði), við skyndiskoðun, við kaup og sölu, í tjónstilkynningum og jafnvel sjálfvirkt eftir því sem tækninni fleygir fram. Þá væri bíleigendum einnig boðið að skrá kílómetrastöðu um áramót á skattframtal.

Eigandi ökutækis fengi bankakröfu frá Skattinum, til dæmis mánaðarlega.

FÍB telur ávinningin af upptöku kílómetragjalds ótvíræðan.

  • Gjaldið endurspeglar umhverfisáhrif viðkomandi ökutækis og álag þess á vegakerfið. Gjaldið mætir þannig fjölmörgum markmiðum sem ekki nást með núverandi og fyrirhuguðum innheimtuaðferðum (vegatollum) af notkun ökutækja.
  • Eigendur bíla sem ganga fyrir rafmagni taka virkan þátt í kostnaði við vegakerfið, en halda eftir sem áður hvatanum til notkunar hreinorkugjafa vegna lægra gjalds.
  • Kílómetragjald kemur í veg fyrir þörfina á dýrri og umdeildri uppsetningu tollahliða og innheimtu í jarðgöngum. Innheimtukostnaður kílómetragjalds nemur aðeins broti af kostnaði við þau áform.
  • Bíleigendur fá betri tilfinningu fyrir aksturskostnaði.
  • Kílómetragjald stuðlar að ákveðnum jöfnuði í gjaldtöku af umferðinni og eyðir þörf fyrir sértæka og óhagkvæma innheimtu af þeim sem nota ein umferðarmannvirki umfram önnur, einkum á fáfarnari stöðum.
  • Sú reikniformúla sem FÍB leggur til skapar mikinn sveigjanleika til að ná fram markmiðum tekjuöflunar ríkissjóðs í samræmi við þróun bílaflotans næstu ár og áratugi. Þannig má gera ráð fyrir að vægi umhverfisþáttar kílómetragjaldsins minnki eftir því sem rafknúnum bílum fjölgar og þá aukist vægi álagsþáttarins, þ.e. að þyngd bílsins hafi meira að segja um kílómetragjaldið.

Tölur um ökutæki og umferð

Forsendur í þessum útreikningum miðast við fjölda ökutækja og akstur árið 2021 samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu.

Fjöldi ökutækja í umferð var 321.232, þar af fólksbílar 85%.

Heildarakstur var 4.230.363 þúsund km og meðalakstur yfir alla línuna 13.169 km.