FÍB leggst eindregið gegn einkafjármögnun vegaframkvæmda

FÍB leggst eindregið gegn frumvarpi samgönguráðherra um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Með þessu frumvarpi er stefnt inn á varasama braut einkavæðingar í vegakerfinu með tilheyrandi innheimtu vegtolla og dýrari lausnum en vera þyrfti.

Markmið frumvarpsins er sagt að auka fjármagn til vegaframkvæmda og flýta þeim þannig. Áformuð samvinna snýst um að fjárfestar fjármagni tiltekin umferðarmannvirki og fái í staðinn tekjur af notkun þeirra. Með aðkomu fjárfesta verða framkvæmdirnar hins vegar dýrari en ef ríkissjóður stendur að fjármögnuninni. Fjárfestar sem taka þátt í samvinnuverkefnunum þurfa að fá áhættuþóknun sem ríkið þarf ekki. Vegtollar eiga að standa undir endurgreiðslum og arðgreiðslum til fjárfestanna næstu 30 árin, með tilheyrandi innheimtukostnaði.

Feluleikur með kostnaðinn

Með aðkomu fjárfesta að vegaframkvæmdum er einfaldlega verið að fela heildarkostnað samfélagsins af uppbyggingu innviða. Skuldastaða ríkissjóðs verður minni en ella og einkafjármagnið er innheimt með notendagjöldum í staðin fyrir skattgreiðslur.

Á endanum bera eigendur ökutækja og notendur vegakerfisins þó allan kostnaðinn, sama hvort ríkið stendur eitt að framkvæmdunum eða fær fjárfesta með sér. Fyrri kosturinn er mun hagstæðari og mælir FÍB með því að ríkisvaldið haldi sig á þeirri braut.

Hagstæðast hjá ríkinu

Ríkissjóður getur engu að síður virkjað fjárfesta til að flýta vegaframkvæmdum, með lántöku hjá þeim. Þannig fæst hagstæðasta fjármagnið. Vissulega verður skuldastaðan hærri í Excel skjalinu í fjármálaráðuneytinu. Heildarkostnaðurinn verður hins vegar minni. Ávinningur almennings er mun meiri en að leyfa fjárfestum að eiga og reka umferðarmannvirkin. Sporin hræða í þeim efnum og nægir að líta til Noregs þar sem notendur mannvirkja hafa nánast verið rændir um hábjartan daginn með svívirðilegum vegtollum. Ekki skyldi gleyma hörmungunum á Ítalíu þegar umferðarbrú í einkaeigu hrundi vegna vanrækslu í viðhaldi.

Kílómetragjald er skynsamlegast

Nýting umferðarmannvirkja er hagur alls samfélagsins og því er fjarstæðukennt að ætla að leggja vegtolla á einhver þeirra og draga þannig úr eðlilegri nýtingu. Vegtollar mismuna fólki eftir efnahag og búsetu og kostnaður við innheimtu þeirra er hærri en draumóramenn vilja vera láta. FÍB hefur margoft bent á að mun einfaldara, ódýrara og sanngjarnara er að taka gjald í samræmi við akstur, þ.e. kílómetragjald. Slík gjaldtaka er einkar hentug til að takast á við orkuskiptin í umferðinni. Með kílómetragjaldi geta eigendur rafdrifinna ökutækja tekið fullan þátt í kostnaði við vegakerfið. Gjaldinu má haga þannig að það hvetji engu að síður til orkuskiptanna.

Ekki eftir neinu að bíða

Ríkið getur nú þegar ráðist í allar þær vegaframkvæmdir sem eru á teikniborðinu upp á eigin spýtur. Góðar samgöngur eru þjóðhagslega hagkvæmar og skila sér margfalt til baka. Umferðir stendur nú þegar undir öllum kostnaði vegakerfisins í gegnum skattgreiðslur og önnur gjöld og mun gera það áfram. Engin ástæða er til að fara Krýsuvíkurleiðina í þeirri uppbyggingu.