FÍB varar við eldsneytisskattahækkunum um áramótin

FÍB skorar á stjórnvöld að koma til móts við fjölskyldur og fyrirtæki í landinu með því að lækka álögur hins opinbera á bifreiðaeldsneyti og að falla frá hugmyndum um að hækka álögur á eldsneyti um komandi áramót, eins og ætlunin er samkvæmt lagafrumvarpi sem nú er til umræðu og afgreiðslu á alþingi. 

 FÍB hefur sent umsögn sína um þetta hækkanafrumvarp til allra alþingismanna sem nú sitja á alþingi og skorar á þá að hætta við þetta glapræði.

 Félag íslenskra bifreiðaeigenda varar við hugmyndum í frumvarpinu um hækkun kolefnisgjalds, vörugjalds og olíugjalds á eldsneyti.  Skattar á hvern lítra af bensíni hafa hækkað um 30 krónur frá því í desember 2008 og skattar á hvern dísillítra hafa hækkað um ríflega 19 krónur á sama tíma.  Fyrirhugaðar skattahækkanir í frumvarpinu hafa í för með sér um 3.5 króna hækkun til viðbótar á eldsneyti til bifreiða frá og með 1. janúar 2011. 

 Þessi þróun hefur mjög neikvæð áhrif á allt athafna- og daglegt líf hér á landi.  Olíuverðshækkunin eykur reksturskostnað fyrirtækja og hækkar flutningskostnað sem skilar sér í hækkun vöruverðs.  Heimilin finna mjög fyrir auknum útgjöldum og verðtryggðar skuldir aukast.  Verst bitnað þetta á tekjulægri hópum og íbúum í dreifbýli sem þurfa að sækja nauðsynlega þjónustu um langan veg.