Fimm hundruð þúsund eintök af Nissan Leaf verið framleidd

Tímamót urðu hjá japanska bílaframleiðandanum Nissan á dögunum þegar fimm hundruð þúsundasta eintakinu af rafbílnum Leaf var ekið af framleiðslulínu bílaverksmiðju Nissan í Sunderland í Bretlandi. Þessum merka atburði var vel fagnað af starfsfólki verksmiðjunnar.

Bíllinn var afhentur eiganda sínum, Maríu Jansen, í Noregi í gær, í tilefni alþjóðadags rafbíla (World EV Day) sem er í dag, miðvikudag. Alls er áætlað að á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að fyrsti Leafinn fór út í umferðina hafi heildarfjölda þeirra í heiminum verið ekið um 14,8 milljarða útblásturslausa kílómetra og sparað kolefnislosun sem nemur meira en 2,6 milljónum tonna.

Á Íslandi hafa rúmlega eitt þúsund Nissan Leaf verið nýskráðir sem sparað hafa umtalsverða kolefnislosun.

 María Jansen sagði í tilefni þess að hún tók við lyklinum að nýja bílnum í Noregi í gær að hún og eiginmaður hennar hefðu átt Leaf frá 2018 og verið afar ánægð með bílinn enda fullnægði hann vel þörfum þeirra.

„Nýi bíllinn er bæði mun langdrægari og tæknilega fullkomnari og svo er það auðvitað mjög skemmtilegt að það skuli hitta þannig á að hann hafi framleiðslunúmerið 500.000. Það gleður okkur mjög,“ sagði María þegar hún tók við lyklinum úr hendi Knut Arild Hareide, samgönguráðherra Noregs.