Fimm nýir Fiatbílar

Fiat ætlar að koma með fimm nýjar gerðir bíla á næstu tveimur árum. Nýju bílarnir eru liður í áætlun sem miðar að því að snúa rekstrinum í Evrópu úr tapi í hagnað. Fjórir þessara nýju bíla eru undirgerðir 500 línunnar og einn er undirgerð Panda. Allir verða þeir markaðssettir í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku fyrst og fremst.

Markaðsstjóri Fiat í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku segir í viðtali við ítalska blaðið Corriere della Serra að verið sé að endurbæta alla þá bíla sem Fiat framleiðir. Markmið þessara endurbóta sé það að bæta bílana og gera þá að gæðabílum (Premium-bílum).  Þetta gæðaátak hafi einkum beinst að framleiðslu 500 línunnar með ágætum árangri og áfram verði haldið á þeirri braut og megináherslan verði áfram á 500 línuna og Fiat Panda, en báðir þessir bílar eru byggðir á sömu byggingar- og véltækni.

Talsmaðurinn sagði ekkert um hvar þessar nýju gerðir yrðu framleiddar, en auk Ítalíu er Fiat með bílaverksmiðjur víðar, m.a. í Póllandi og í S. Ameríku. En hann gat þess að á allra næstu vikum verði gengið frá mikilvægum samstarfssamningum við aðila í Rússlandi en vildi ekki segja við hverja né um hvað.