Finna þarf út hvort brugðist hafi verið rétt við aðstæðum

Það hefur komið ótvírætt í ljós síðustu daga hversu mikilvægu hlutverki Reykjanesbrautin gegnir í samgöngum og þá alveg sérstaklega tenging hennar við Keflavíkuflugvöll.  

Óveðrið sem skall á aðfaranótt laugardagsins átti heldur betur eftir að setja daglegt líf fólks úr skorðum sem fer um brautina. Þúsundir sem hugðu á ferðalög fyrir jólahátíðina komust hvorki lönd né strönd. Á sama tíma var Keflavíkurflugvölllur lengstum opinn en Reykjanesbrautin lokuð vegna ófærðar, ökumenn höfðu fest bíla sína og lokað brautinni fyrir eðlilega umferð.

Þeir sem besta þekkja til mála á þessu svæði segja þetta ástand sem skapaðist fordæmalaust en brautin var lokuð með stuttu hléi í rúman sólarhring. Innviðaráðherra hefur brugðist við, kallað viðbragðsaðila á sinn fund, þar sem fara á yfir það af hverju lokunin varði svona lengi.

Allir aðilar þurfa núna að koma að borðinu

Á þessum árstíma er auðvitað allra veðra von. Samt virðist svo þegar málin eru skoðuð nánar hafi verkferlar sem lúta að stjórnun þegar ástand sem þetta skapast verið ábótavant. Það er eins og alla heildarsýn í stjórnun og framkvæmd hafi skort. Ljóst er að allir aðilar þurfa núna að koma að borðinu, finna út hvort brugðist hafi verið á réttan hátt við aðstæðum.

Það eru spurningar sem vakna í þessu sambandi en hvaða lærdóm getur Vegagerðin dregið af þeim aðstæðum sem voru á Reykjanesbrautinni núna í vikunni. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegargerðarinnar, segir í samtali við FÍB að farið verði ofan í saumana á þessu máli, verklagi öllu og samvinnu allra aðila sem komu að þessu ástandi sem skapaðist.

Búið að setja saman vinnuhóp

,,Það er búið að setja saman starfshóp frá ríkislögreglustjóra, lögreglunni á Suðurnesjum, ráðuneytinu og fleiri aðilum. Hópurinn mun fara yfir málin í heild sinni og sjá hvað við getum lært af þessu,“ sagði G. Pétur Matthíasson við FÍB. Starfshópurinn mun koma saman til fundar á fimmtudag.

Inntur eftir því hvort ekki hefði verið hægt að minnka skaðann, eða koma að málum með öðrum hætti eins og að halda leiðinni opinni og koma fólki í flug. Hann sagði það ekki hafa verið hægt, veðurhamurinn hafi verið slíkur.

,,Það hefði verið mjög snúið en við verðum að skoða hvort það hefði verið einhver möguleiki. Við opnuðum leiðina í klukkutíma á mánudagskvöld en fljótlega fór bílar aftur að festast. Það var mjög blint, rúta fauk út af og ástandið var mjög snúið. Við verðum að gera okkur ljóst að ekki er hægt að hafa þessar leiðir svona lengi lokaðar eins og raunin varð á. Við verðum að finna einhver ráð til að mæta aðstæðum sem þessum. Við reyndum fylgdarakstur en umferðin var svo mikil að mjög erfitt var að halda henni áfram. Endurskoða þurfi þær heimildir sem Vegagerðin hafi til að fjarlægja bíla sem sitji fastir í sköflum á vegum og í vegarköntum. Eins og staðan sé nú hafi Vegagerðin ekki heimild til þess, sem geri snjómokstur þeim mun erfiðari. Ekki bætti úr skák að þetta var óvenju langur óveðurskafli. Þetta þurfi að skoða sem og annað samhliða þessu atviki. Þetta gerist ekki oft en finna þurfi leiðir ef þetta gerist aftur,“ sagði G. Pétur Matthíasson í samtali við FÍB.

Leggjast þurfi yfir allt málið í heild sinni

Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra í Morgunblaðinu að leggjast þurfi yfir allt málið í heild sinni og tryggja sem best að Reykjanesbrautin sé ekki lokuð á meðan flugvöllurinn er opinn. Sigurði Ingi segir mikilvægt að leita allra leiða til þess að draga alla þar að borðinu og nefnir þar Vegagerðina, lögreglu og almannavarnir. Ráðherra leggur áherslu á að gera það sem gera þarf til þess að halda einum mikilvægasta vegi landsins opnum. Ráðherra hefur þegar kallað sam­an hóp til þess að fara yfir verk­ferla í kring­um lok­un­ina eins og áður kom fram.

Í samtalinu við Morgunblaðið er Sigurðir Ingi inntur eftir því hvort hvort lok­un­in veki spurn­ing­ar um innviðaör­yggi og teng­ingu Íslands við um­heim­inn í gegn­um Leifs­stöð.

„Að ein­hverju leyti og þess vegna þarf að leggj­ast yfir þetta með öll­um þess­um aðilum. Það þarf að tryggja að svona ger­ist ekki. Auðvitað get­um við ekki komið í veg fyr­ir allt óveður og stund­um verðum við að sætta okk­ur við það, en í svona lang­an tíma og á meðan flug­völl­ur­inn var op­inn, þá þurf­um við að gera bet­ur í því,“ segir Sigurður Ingi.