Fisker á hvínandi hausnum

Fisker Automotive, bílaframleiðslufyrirtækið sem danski bílahönnuðurinn Henrik Fisker stofnaði til að framleiða rafbílinn Fisker Karma er dauðadæmt og útséð er talið með að það nái vopnum sínum nokkru sinni. Talið er að á hverjum einasta bíl sem þó seldist hafi fyrirtækið tapað rúmlega fjórum milljónum ísl. króna.

Henrik Fisker er mjög vel þekktur bílahönnuður og meðal gripa sem hann hefur hannað, fyrir utan Fisker Karma auðvitað,  eru BMW Z8 og Aston Martin DB9. Rafbíllinn Karma (með innbyggðri rafstöð) fékk mjög góða kynningu og athygli í fjölmiðlum heimsins og svo virtist sem  hann ætti bjarta framtíð. Samsetningin á honum fór fram hjá Valmet í Finnlandi sem þekkt er fyrir mikla vöruvöndun, fyrirtækið var nokkuð vel fjármagnað í upphafi og margt benti til að það ætti framtíð fyrir sér. En það fór á annan veg og nú hefur enginn einasti bíll verið byggður í rúmlega ár og fyrirtækið í greiðslustöðvun.

Alls tókst að fá peningafólk til að fjárfesta 1,4 milljarða dollara í Fisker Automobile. En þrátt fyrir það tókst aldrei að fá reksturinn í jafnvægi. Reuters fréttastofan hefur komist yfir gögn sem sýna þetta. Gögnin sýna einnig að fyrirtækið var komið í fjárhagsvandræði þegar árið 2011 en því var haldið leyndu fyrir fjárfestum.

Fisker Automobile var stofnað árið 2007. Samkvæmt áætlunum átti að byggja 15 þúsund bíla á ári, sem alls ekki hefur gengið eftir. Einungis voru byggðir um 2.450 bílar og framleiðslukostnaður á hvern bíl reyndist mjög vanáætlaður og útilokað að fá nokkra manneskju til að kaupa bílana á því verði sem þeir kostuðu í framleiðslu. Þá mun það ekki hafa bætt úr skák að Henrik Fisker var stöðugt að breyta hönnuninni. Þannig er ein slík breyting sem gerð var á síðustu mínútu sögð hafa kostað það að varahlutalager upp á milli 50 og 100 milljónir dollara varð að öskuhaugamat og ýmis fleiri hönnunarmistök eru tilgreind sem sögð eru hafa kostað milljónir dollara til viðbótar.

En þrátt fyrir gríðarlegan taprekstur og og óstjórn eru stofnendurnir, þeir Fisker og Barney Koehler sagði hafa verið ónískir á að greiða sjálfum sér laun og tekið hvor um sig 4,5 milljónir dollara í árslaun og ekki verið að lækka þau þótt verið væri að segja fólki upp hundruðum saman.  Nú hefur Henrik Fisker yfirgefið fyrirtækið en hinn stofnandinn, Barney Koehler er ennþá forstjóri og hefur ekki óskað eftir gjalþrotameðferð.

Þeir sem lögðu fé í fyrirtækið eru afar ókátir og og heimta skýringar og benda til samanburðar á Tesla Motors sem gengur miklu betur. Þar hafa hlutabréfin þrefaldast í verði  frá áramótum.