Fjárfestingar í innviðum samgöngukerfisins

Framlög til samgöngumála í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021, sem lagt var fram í gær, nema ríflega 56,2 milljörðum króna sem er um 10,7 milljarða aukning frá gildandi fjárlögum eða 23,6%. 35.525 milljarðar króna fara til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu sem er hækkun um 31,4% frá síðasta ári.

Á meðal framkvæmda sem ráðist verður í má nefna að akstursstefnur verða aðskildar á stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu; á Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi. Einnig verða framkvæmdir á Þverárfjallsvegi og Skagastrandarvegi, Borgarfjarðarvegi, Snæfellsnesvegi um og Skógarströnd og hringtorg við Landvegamót á Eyrarbakkavegi og á Flúðum.

Stærstu framkvæmdir utan fjárfestingarátaks eru m.a. á Suðurlandsvegi milli Biskupstungnabrautar og Varmár í Ölfusi, hringvegur um Kjalarnes, Vestfjarðarvegur um Gufudalssveit og Dynjandisheiði og Akranesvegur. Einnig er lögð áhersla á að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi.

Átak verður í fækkun einbreiðra brúa á hringvegi m.a. Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi, Núpsvötn, Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi og Skjálfandafljót á hringvegi hjá Fosshóli og Goðafossi.