Fjárframlög til viðhalds hafa lengi verið of lág og er sú innviðaskuld orðin töluverð
Undanfarið hefur orðið vart við bikblæðingar á vegum. Hlýindi og mikill hiti undanfarna daga hafa haft áhrif á yfirborð klæðninga á vegum landsins, sem getur orðið að verulegu vandamáli fyrir ökumenn.
Bikblæðingar geta átt sér stað þegar yfirborð á klæðingu á vegum hitnar mikið á sólríkum dögum. Við þessar aðstæður geta steinar klæðingarinnar, sem jafnan eru efstir, sokkið ofan í bikið. Bikið verður því eftir á yfirborði klæðingarinnar.
Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, var inntur eftir því af hverju þetta vandamál komi upp aftur og aftur við þessar aðstæður eins verið hafa síðustu daga?
,,Vegna þess að það eru klæðingar á vegakerfinu þar sem hlutfall biks er heldur hátt á móti steinefnum, og margir dagar í röð þar sem veghitinn nær yfir 30 gráðu hita sem saman með mikilu álagi af umferð þrýstir steinefninu niður í klæðinguna og bikið verður þannig í yfirborðinu. Það er ekkert eitt sem veldur, samhengi ýmissa atriða, steinlos í klæðingum vegna slits, mikil álag og aldur slitlaga,“ segir G. Pétur.
- Hvaða aðferðir notast Vegagerðin við til að takast á við blikblæðingar?
,,Sanda og kæla með því að bleyta yfirborðið, lækka hraða og ef ástandið versnar mjög mikið þá hugsanlega setja á þungatakmarkanir,“ segir G. Pétur.
- Fram hefur komið að Vegagerðin myndi vilja nota malbik mun víðar en nú er gert. En til þess vanti einfaldlega fjármagn. Hvað er til ráða í þessum efnum?
,,Fjárframlög til viðhalds mannvirkja í samgöngukerfinu hafa lengi verið of lág og er sú innviðaskuld orðin töluverð. Nauðsynlegt er að auka töluvert fjármagn í viðhaldið og nauðsynlegt er að halda þeirri umræðu á lofti þegar verið er að ræða um forgangröðun fjármuna. Til stendur að malbika þekkta blæðingakafla með viðbótarfjármagni sem stendur til að útvega með fjárauka.
Besta lausnin er að malbika meira en það kostar 3-5 sinnum meira en að leggja klæðingu, þannig að það kallar auðvitað á meira fjármagn. Umferð víða á vegakerfinu kallar orðið á það að malbika í stað klæðingar,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Sjá nánar á fibfrettir.is