Fjármálaeftirlitið skilur ekki hlutverk sitt

Fjármálaeftirlitið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna gagnrýni FÍB á aðhaldsleysi stofnunarinnar með tryggingafélögunum. Ljóst er að FME skilur ekki í hverju gagnrýnin felst.

   FME telur að tryggingafélögin hafi ekki staðið sig sem skyldi við að réttlæta óeðlilegar arðgreiðslur. FME skilur ekki að það er ekkert að réttlæta.

   FME skilur ekki að gagnrýnin snýst um andvaraleysi stofnunarinnar þegar kemur að hagsmunum almennings. FME vanrækir þetta hlutverk sitt.

   FME ráðleggur tryggingatökum að skipta bara um tryggingafélag ef þeir eru ósáttir við óeðlilegar arðgreiðslur. Þrjú stærstu tryggingafélögin með 90% markaðarins sæta öll gagnrýni fyrir áform um óhóflegar arðgreiðslur. Hverju breytir fyrir viðskiptavin að fara frá einu slíku yfir í það næsta? Ljóst er að FME er ekki í tengslum við raunveruleikann.

   Skilningsleysi FME kemur skýrt fram í hvatningu stofnunarinnar til tryggingafélaga um að hækka iðgjöld á sama tíma og þau dæla milljörðum króna út í arðgreiðslum. FME lætur eins og iðgjaldatekjur og fjárfestingatekjur tryggingafélaganna séu óskyldir hlutir. Þetta er rangt. Tryggingafélögin ávaxta fyrirframgreiddu iðgjöldin og þannig verða fjárfestingatekjurnar til. Sú ávöxtun á að vera í þágu viðskiptavina, en ekki bara eigenda félaganna.  Samt telur FME þörf á iðgjaldahækkun af því að „tryggingahlutinn“ sé rekinn með tapi þó fjármálahlutinn skili hagnaði, rétt eins og hann sé óskyldur tryggingum. En að sjálfsögðu er heildarafkoman það sem skiptir máli þegar þörfin fyrir hækkun er metin. FME stendur með fyrirtækjunum gegn hagsmunum neytenda þegar það leggur blessun sína yfir iðgjaldahækkun hjá tryggingafélögunum sem taka á sama tíma milljarða króna í arð.

   Gagnrýni FÍB og fjölda annarra snýst um að vegna breytinga á reglum um reikningsskil telja tryggingafélögin að þau geti nýtt uppsafnaða bótasjóði í eigin þágu, þar á meðal í óhóflegar arðgreiðslur. Vegna hinna nýju reikningsskila þurfa tryggingafélögin ekki lengur á bótasjóðunum að halda til að eiga fyrir tjónum. Þeim nægir sterk eiginfjárstaða. En það voru viðskiptavinir félaganna sem byggðu þessa sjóði upp með ofteknum iðgjöldum. Sjóðirnir voru ætlaðir til að greiða tjón, þeir voru skuld við tjónþola en ekki ætlaðir í arðgreiðslur.

   FME hafnar því að viðskiptavinir tryggingafélaganna eigi bótasjóðina. Þar með eru sjóðirnir eign tryggingafélaganna að mati FME. Þetta gengur gegn skilgreiningu tryggingafélaganna sjálfra. Þau hafa ætíð haldið því fram að bótasjóðirnir séu eign tjónþola, sjóðirnir séu skuld við þá sem eiga eftir að lenda í tjónum. FME þarf að upplýsa hvernig skuld getur fjármagnað arðgreiðslur.

   FME segist í yfirlýsingu sinni ekki hafa lagaheimild til að gefa tryggingafélögunum fyrirmæli um ráðstöfun arðs til tryggingatakanna sem byggðu upp bótasjóðina. Hér undirstrikar FME sofandahátt síðustu 6-7 ára, meðan innleiðing nýrra reikningsskila hefur verið í undirbúningi. Fyrir löngu var FME ljóst að tryggingafélögin þyrftu ekki á bótasjóðunum að halda þegar nýju reglurnar, sem kallast Solvency 2, yrðu innleiddar. Þegar árið 2011 uppfylltu öll tryggingafélögin nýju kröfurnar. Þá þegar gat FME farið að vinna með tryggingafélögunum að því að láta þau skila bótasjóðunum til viðskiptavina með því einfaldlega að nýta þá til að greiða tjón. Á móti hefði verið hægt að lækka iðgjöld og þannig hefðu viðskiptavinir tryggingafélaganna fengið sjóðina endurgreidda.

   En líkt og fyrri daginn virðast hagsmunir viðskiptavina tryggingafélaganna engu máli skipta fyrir FME, þó svo að stofnunin hafi þá lagaskyldu að gæta þeirra. Þess í stað stendur stofnunin þétt að baki fjármálafyrirtækjum sem mergsjúga almenning í skjóli fáokunar.

   FME segist óska FÍB hins besta í hagsmunabaráttu sinni. FÍB er ekki að berjast fyrir sínum hagsmunum, heldur hagsmunum alls almennings í landinu. En ef rétt væri að málum staðið, þá þyrfti FÍB ekki að standa í þessari baráttu. Það er nefnilega FME sem á að gæta hagsmuna almennings gagnvart tryggingafélögunum.