Fjármálaeftirlitið vill ekki upplýsa neytendur
Í gegnum tíðina hefur FÍB reynt að fá Fjármálaeftirlitið (FME) til að skýra frá aðhaldi sínu að tryggingafélögunum í þágu viðskiptavina. Fyrir bíleigendur er sérstök ástæða til að spyrja, því tryggingafélögin hafa safnað upp tugmilljarða króna sjóðum með ofteknum iðgjöldum bílatrygginga. Spurt er hvaða þörf er fyrir slíka sjóði.
Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar engan áhuga á því að svara.
Bótasjóður ökutækjatrygginga stendur í 75 milljörðum króna. Bótasjóðurinn er einnig kallaður tjónaskuld. Sjóðurinn hefur hækkað um 22,5 milljarða króna á síðastliðnum níu árum. Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir sem teknir eru af bíleigendum.
Spurningarnar sem FÍB vill fá svör við eru þessar:
- Þarf virkilega 75 milljarða króna sjóð til að standa undir ófyrirséðum tjónum í bílatryggingum?
- Gerir Fjármálaeftirlitið virkilega engar athugasemdir við þessa gríðarlegu uppsöfnun?
Fjármálaeftirlitið vill engu svara um hvort þörf sé á þessum sjóði. FME upplýsti FÍB aftur á móti 2021 og staðfesti síðan í byrjun júní 2025 að engum tilmælum hafi verið beint til tryggingafélaganna um að hætta að safna í bótasjóðinn (tjónaskuldina).
FME (sem nú er deild í Seðlabankanum) segist ekki geta tjáð sig um eftirlitsverkefni og eftirlitsaðgerðir umfram það sem kemur fram í gagnsæistilkynningum. En í þeim göngum kemur ekkert fram sem svarar spurningunni hvenær nóg er komið? Hversu djúpt á að kafa í vasa bíleigenda?
Ekkert bannar upplýsingagjöfina
Þvermóðska FME til að upplýsa mat sitt á þörfinni fyrir bótasjóðinn er illskiljanleg. Ekkert bannar slíka upplýsingagjöf. Þvert á móti segir í lögum um Fjármálaeftirlitið að því sé heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum sínum. Í ritinu „Fjármálaeftirlit 2025“ er sérstaklega tekið fram að markmið starfseminnar sé að draga úr líkum á að vátryggingastarfsemi leiði til tjóns fyrir almenning. Hvernig getur almenningur gengið úr skugga um hvort 75 milljarða króna sjóðasöfnun tryggingafélaganna er honum til tjóns eða ekki, ef FME neitar að útskýra rökin fyrir því? Eiga bíleigendur að treysta FME í blindni, stofnun sem hafnar aðhaldi almennings?
Unnið gegn markmiðum upplýsingalaga
Ljóst er að með svarleysinu vinnur FME gegn markmiðum upplýsingalaga. Lögunum er ætlað að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna. Tilgangurinn er m.a. að styrkja möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, skapa aðhald að opinberum aðilum og efla traust almennings á stjórnsýslunni.