Fjármálaráðherra vill setja 8,7 milljarða í Vaðlaheiðargöng

Þessa dagana er alþingi að ræða frumvarp Oddnýjar Harðardóttur fjármálaráðherra sem snýst um það að ríkissjóður láni Vaðlaheiðargöngum 8,7 milljarða króna. Í einu af fylgiskjölum með frumvarpi ráðherra varar Ríkisábyrgðarsjóður sterklega við þeirri áhættu sem ríkissjóður tekur á sig með þessari lánveitingu. Ríkið ætli að taka á sínar herðar alla áhættu af fjármögnun verkefnisins og treysta því að fjárfestum takist að endurfjármagna það án ríkisábyrgðar að framkvæmdum loknum árið 2018, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því að hinar ofurbjartsýnu áætlanir og forsendur Vaðlaheiðarganga hf um endurfjármögnun og vaxtakjör og um umferð og tekjur af veggjöldum árið 2018 gangi upp. Ríkisábyrgðarsjóður telur þvert á móti líklegt að göngin muni ekki standa undir sér, greiðslufall verði og allur kostnaðurinn muni falla á herðar skattgreiðendum.

Hunsar eigin stofnun og eigin orð

Fjármálaráðherra telur greinilega litla ástæðu til að taka mark á Ríkisábyrgðarsjóði því í athugasemdum hennar með frumvarpinu segir hún að ekki séu… „nein merki um að á næstu árum verði um sérstakan viðsnúning að ræða varðandi þróun vaxta verðtryggðra skuldabréfa."

Þá stingur frumvarpsflutningur fjármálaráðherra verulega í stúf við það sem hún sjálf sagði í grein sem birtist eftir hana í Fréttablaðinu þann 10. apríl 2012. Í greininni fjallar hún um viðkvæma stöðu ríkissjóðs þrátt fyrir góðan bata og  segir: „Vegna þeirrar slæmu stöðu sem íslenskri þjóð var komið í eftir algert hrun bólu- og froðuhagkerfis, urðum við að klífa saman afar bratta brekku sem mörgum þótti nánast ókleif. Okkur tókst það afrek og eigum nú aðeins síðasta spölinn eftir til að ná alla leið.

Í stjórnmálaumræðu koma reglulega fram tillögur um mikla útgjaldaaukningu eða tillögur um skattalækkanir og þar með tekjulækkun ríkissjóðs. Fæstar þessara tillagna eru studdar mótvægisaðgerðum til að forða ríkissjóði frá skuldasöfnun, því sá hluti er ekki til skyndivinsælda fallinn. Sagan sýnir okkur að fjöldi slíkra hugmynda vex mjög þegar nær dregur kosningum og nær hámarki á kosningavetri. Þá skiptir máli að halda aga og staðfastri stefnu. Ég mun ekki falla í þá freistni að láta skammtímahagsmuni ráða við samningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013, heldur vinna af festu að þeim langtímamarkmiðum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur sett.“

Síðar í grein sinni frá 10. apríl sl. segir Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra: „Við höfum þurft að reka ríkissjóð á lánum frá hruni og því fylgir gríðarlega mikill kostnaður. Í ár greiðum við Íslendingar um 77 milljarða króna í vexti. Áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum er því nauðsynlegt því vaxtagjöldin eru mjög íþyngjandi og enginn veit hvernig vaxtastigið í heiminum mun þróast á næstu árum en það hefur að undanförnu verið í sögulegu lágmarki. Það er forgangsverkefni að gera ríkissjóð færan um að hefja niðurgreiðslu skulda sem fyrst. Það er mikilvægt fyrir velferðina í landinu þannig að vaxtagreiðslum megi breyta í velferðaruppbyggingu þegar fram líða stundir en er einnig mikilvægt fyrir stöðu sjálfstæðrar þjóðar.“

Er þetta Spaugstofan?

Ætla mætti af þessu að það sé alls ekki sama manneskjan sem skrifaði greinina í Fréttablaðið þann 10. apríl sl. og sem leggur fram fyrrnefnt frumvarp. Hvar er nú aginn og stefnufestan og viljinn til áframhaldandi aðhalds í ríkisfjármálum? Engu er líkara en að þekkt persóna úr Spaugstofunni sé þarna komin með fingurna í spil ráðherrans.

Borun Vaðlaheiðarganganna hefur af hálfu framámanna á Akureyri og nágrenni og þingmanna norðurkjördæmis eystra verið sótt mjög fast og lengst af undir merkjum einkaframkvæmdar. Fréttavefur FÍB og FÍB blaðið bentu á það fyrstir fjölmiðla hversu fjárhagslegar forsendur verkefnisins væru á veikum grunni reistar og ólíklegar til að standast kaldan raunveruleikann. Stjórn FÍB hefur síðan þá gagnrýnt málatilbúnað Vaðlaheiðargangamanna og margir fleiri tekið í sama streng, enda hefur ekkert nýtt komið fram í málinu sem réttlætir aðkomu ríkisins að því með þeim hætti sem frumvarp fjármálaráðherra gerir ráð fyrir. Vissulega hafa pöntuð álit sem alfarið byggðu á ítrustu bjartsýnisforsendum talsmanna ganganna komið fram, en þau geta tæpast talist vera marktæk innlegg. Meginatriði málsins eru þessi.

1.   Vaðlaheiðargöng eru langt í frá efst á forgangslista samgönguáætlunar.  Þessvegna vilja menn taka þau út fyrir sviga samgönguáætlunar. Forsenda þess er að þau verði sjálfbær og algerlega án útláta fyrir ríkissjóð. Gangamenn fullyrða að svo verði enda þótt forsendur þeirrar fullyrðingar séu vægt sagt hæpnar.

2.   FÍB sýndi upphaflega fram á að áætlanir um sjálfbærni ganganna stóðust ekki skoðun. Hið sama gerði Pálmi Kristinsson verkfræðingur nokkru síðar. Engin sannfærandi rök hafa síðan komið fram um hið gagnstæða heldur þvert á móti, eins og umsögn Ríkisábyrgðarsjóðs staðfestir og fjármálaráðherra hyggst ekki taka mark á.

3.   Í samþykkt alþingis nr 90/2010 er það forsenda heimildar fyrir því að taka Vaðlaheiðargöng út fyrir sviga samgönguáætlunar að verkefnið standi undir sér  og veggjöld greiði allan kostnað vegna þeirra. Í fjáraukalögum ársins 2011 er það sömuleiðis ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir lántöku ríkissjóðs vegna Vaðlaheiðarganga að göngin verði fjárhagslega sjálfbær.  

4.  Með frumvarpi sínu fer fjármálaráðherra á svig við bæði innanríkisráðherra og ráðuneyti hans sem þó hafa samöngumál landsins á sínu forræði, sem og umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Innanríkisráðherra hefur alla tíð sagt það vera forsendu þess að taka Vaðlaheiðargöngin út úr samgönguáætlun að þau yrðu fjárhagslega sjálfbær. Veggjöld myndu nánast sannanlega standa undir kostnaði vegna þeirra. Sömu skoðunar er meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar.