Fjölmörgum framkvæmdum flýtt í endurskoðaðri samgönguáætlun

Gjald­taka verður í til­tek­inn tíma fyr­ir akst­ur um Sunda­braut, á nýrri brú yfir Ölfus­fljót, um tvö­föld Hval­fjarðargöng, um jarðgöng um Reyn­is­fjall og Ax­ar­veg. Um verður að ræða svo­kölluð sam­vinnu­verk­efni einkaaðila og rík­is þar sem gjald­taka verður í af­markaðan tíma en síðan verður eign­ar­hald innviða af­hent rík­inu í lok samn­ings­tíma. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á fundi ráðuneytisins sem haldinn var í Norræna húsinu í morgun.

Á fundinum fór fram kynning á uppfærðri og endurskoðaðri samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.Endurskoðun samgönguáætlunarinnar leiddi það af sér að fallið hefur verið frá gjaldtöku á stofnleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu.

„Það er þörf á samgöngubótum um land allt og það er bjargföst trú mín að með betri og fjölbreyttari samgöngum megi byggja sterkara samfélag. Aukið öryggi á vegum skiptir höfuðmáli en sömuleiðis framkvæmdir til að stytta leið fólks milli byggðarlaga sem aftur eflir atvinnusvæðin. Við þurf­um að hugsa út fyr­ir boxið hvað varðar fjár­mögn­un,“ sagði ráðherra. Að öðrum kosti verðum við mjög lengi að þessu; við verðum 50 ár að klára verk­efni sem við ætl­um að klára á næstu 15 árum,“ sagði Sigurður Ingi á kynningunni í morgun.

 Drög að samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 31. október 2019. Í samgönguáætluninni er sérstök áhersla lögð á að flýta framkvæmdum innan tímabilsins frá því sem áður var. Einnig eru nýjar stefnur kynntar um flug á Íslandi og almenningssamgöngur milli byggða.

Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun til fimmtán ára á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi síðasta vetur. Einnig er kynnt uppfærð aðgerðaáætlun fyrir fyrsta tímabilið 2020-2024. 

Bein framlög til samgöngumála nema alls tæpum 633 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar,þar af falla tæpir 560 milljarðar til vegagerðar.

 Helstu atriði í uppfærðri samgönguáætlun:

  • Við endurskoðun fjármálaáætlunar síðasta vor var samþykkt að auka framlög til vegagerðar umtalsvert. Þeim fjármunum er m.a. ráðstafað í aukin framlög til nýframkvæmda, viðhalds vega og þjónustu. Framlögin hækka um 4 milljarða á ári á tímabilinu 2020-2024 frá því sem áður var.
  • Fjölmörgum framkvæmdum er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Á tímabilinu verður framkvæmdum, sem í heild eru metnar á um 214,3 milljarða króna, flýtt. Þar af eru framkvæmdir fyrir um 125,5 milljarða króna utan höfuðborgarsvæðisins og 88,8 milljarða króna í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. 
  • Kynnt eru áform um helstu verkefni sem geta hentað vel fyrir samvinnuverkefni (PPP) ríkis og opinberra aðila en slík fjármögnun getur flýtt mörgum verkefna samgönguáætlunar.
  • Sérstök jarðgangaáætlun er kynnt en þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist þegar á árinu 2022.
  • Bein fjármögnun ríkisins í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er staðfest í samgönguáætluninni. Sáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu felur í sér sameiginlega sýn og heildarhugsun fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu.
  • Unnið verður að framkvæmdum til að aðskilja akstursstefnur frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, austur fyrir Hellu og að Leifsstöð.
  • Drög að fyrstu flugstefnu Íslands er kynnt með tólf lykilviðfangsefnum.
  • Drög að fyrstu heildarstefnu um almenningssamgöngur milli byggða er kynnt með sex lykilviðgangsefnum.

Framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjast 2022

Sérstök jarðgangaáætlun birtist nú í samgönguáætlun. Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng ljúki árið 2020. Þá er miðað við að flýta upphafi framkvæmda við Fjarðarheiðargöng þannig að þær hefjist árið 2022 eða talsvert fyrr en áður hefur verið ráðgert. Fjarðarheiðargöng eru sett í forgang, í samræmi við niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að verkefnið muni klárast á gildistíma áætlunarinnar.

Í kjölfarið hefjast framkvæmdir á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og síðan frá Mjóafirði til Norðfjarðar og þannig verði komið á hringtengingu á svæðinu.

Gert er ráð fyrir því að framlög af samgönguáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Þá er stefnt að því að gjaldtaka af umferð í jarðgöngum á Íslandi standi undir hinum helmingi kostnaðar við framkvæmdir en einnig að sú innheimta muni fjármagna rekstur og viðhald ganganna að framkvæmdum loknum.