Fjórfalt lengra á rafhleðslunni

Hjá Toyota í Japan er nú verið að vinna að því að þróa nýja rafhlöðutækni fyrir rafbíla. Orkurýmd nýju geymanna er sögð verða mun meiri en rýmd líþíum-jóna rafhlaðanna sem nú eru algengastar. Með þeim mun drægi rafbíla fjórfaldast auk þess sem nýju rafhlöðurnar verða ódýrari en núverandi rafhlöður.

Nýju rafhlöðurnar munu líklega komast í gagnið á næstu árum og auka drægi rafbíla umtalsvert. Ekki mun af veita því að það sem helst stendur í vegi fyrir útbreiðslu rafbíla er það hve skammdrægir þeir eru og því skammdrægari sem loftslag er kaldara. Í N. Evrópu kemst Nissan Leaf rafbíllinn þetta 150-200 km á hleðslunni þegar aðstæður eru góðar að sumarlagi. Tesla S er langdrægari en hann kemst allt að 500 km, sem er nokkurnveginn helmingur þess sem sambærilegur bíll með dísilvél kemst á fullum tanknum. Þar sem lofthiti hér á landi er yfirleitt lægri en í N.Evrópu má búast við skemmra drægi þessara rafbíla hér .

Nýju langdrægu rafhlöðurnar eru ekki líþíum-jónarafhlöður heldur svonefndar Solid State rafhlöður. Tæknistjóri hjá Toyota segir að þær muni leysa líþíumrafhlöðurnar af hólmi árið 2020. Þar með verði drægi Toyota rafbíla amk. 600 kílómetrar á hleðslunni. Solid State rafhlöðurnar hafi að öllu leyti yfirburði yfir líþíum rafhlöðurnar. Rafleiðni í þeim sé miklu meiri og þar að auki séu þær mun léttari og þoli betur að vera endurhlaðnar og endist þannig betur en líþíumrafhlöðurnar.

Þetta telja bílamenn að sjálfsögðu góð tíðindi en ýmsum álitamálum sé þó enn ósvarað: Enn sem komið er sé hleðslutími Solit State rafhlaðna of langur og lengri en líþíum rafhlaðnanna. Þá sé óvíst hvort mögulegt sé að fjöldaframleiða þær með viðunandi afköstum og að gæðin verði jafnframt vðunandi. Þá hafi ekki enn verið sýnt óyggjandi fram á það að Solid State rafhlöðurnar þoli fleiri endurhleðslur en hinar. Og þá er enn ótalinn framleiðslukostnaðurinn: Verður hann lægri en hinna rafhlaðanna?

Svarið við hinu síðastnefnda er trúlega já. Framleiðslukostnaðurinn gæti orðið lægri vegna þess að í orðunum Solid State felst að straumrásir eru, svipað og í nútíma hljómtækjum og tölvum, prentaðar á þunnar málm- eða plastplötur. Þessi prentaðferð er nefnilega meginforsenda þess að gera nýju rafhlöðurnar ódýrari og rafbíla þannig ódýrari en þeir eru í dag. Miklu skiptir að framleiðslukostnaðurinn lækki. Verðmyndun rafbílanna í dag er í megindráttum þannig að sjálfur bíllinn kostar nýr svipað eða lítilsháttar meir en hefðbundinn bíll með brunahreyfli. Síðan kostar rafhlöðusamstæðan í bílinn vel rúmlega annað eins.