Fjórir nýir fimm stjörnu bílar

http://www.fib.is/myndir/Euroncap-logo.jpg
Nýlokið er hjá Euro NCAP árekstrarprófunarlotu og eru helstu niðurstöður þær að fjórir bílar hlutu fimm stjörnur fyrir vernd fullorðinna í bílnum í árekstrum. Þessir eru fjölnotabílarnir Ford Galaxy og Citroen C4, stallbakarnir Mercedes Benz B og Lexus IS.

Vonbrigðum olli að hinn nýi Honda Civic náði ekki fullu húsi stjarna heldur fjórum. Sama er að segja um stóra jeppann Audi Q7. Hann hlaut einnig fjórar stjörnur af fimm.
Frá því í ágúst sl. hefur EuroNCAP gefið út nýjar prófunarskýrslur um samtals átta bíla og er nú fyrst birt áður gerð prófun á Hyundai Sonata stallbaknum sem reyndar var prófaður sl sumar. Árangur Sónötunnar er þó fyrst nú gefinn út þar sem prófunin á bílnum var endurtekin að kröfu Hyundai í kjölfar árangursins í fyrstu tilraun.

Um árangur fimm stjörnu bílanna fjögurra segir Claes Tingvall stjórnarformaður EuroNCAP að framleiðendur þeirra trúi greinilega að viðskiptavinir þeirra vilji eins örugga bíla og kostur er og að framleiðendurnir ráði vel við að koma til móts við þær óskir. „Það er mikils virði að vita að til séu framleiðendur sem leggja sig fram um að bílar þeirra nái sem bestum árangri,“ sagði Claes Tingvall í morgun. Hann sagði það á hinn bóginn vonbrigði að Hondan skyldi ekki ná fimm stjörnum eins og fastlega hefði verið búist við og sterklega látið í veðri vaka af hálfu Honda á heimasíðu fyrirtækisins og í fréttatilkynningum og kynningarefni um bílinn. Árangur nýju Hondunnar sé vart viðunandi í samanburði við bestu sambærilega bíla af nýjustu gerð. „Yfirlýsingar þessar hafa verið klárlega villandi og ruglað fólk í ríminu. Honda er einfaldlega ekki með fimm stjörnu bíl og hefði betur beðið með yfirlýsingar sínar þar um þar til úrslit lágu fyrir,“ sagði Tingvall ennfremur.
http://www.fib.is/myndir/Crashtest06.jpg
Það sem felldi út fimmtu stjörnuna hjá Audi Q7 var að gólfið í framsætinu rifnaði vegna lélegrar suðu á samsetningu. Audi fullyrðir að búið sé að breyta samsetningarferlinu þannig að þessi ágalli sé úr sögunni. Fyrirtækið hefur hins vegar ákveðið að óska ekki eftir endurtekningu á árekstursprófinu.

Claes Tingvall segir að Q7 jeppinn sé dýr  lúxusjeppi frá framleiðanda sem þekktur sé fyrir gæðaframleiðslu. Kaupendur bílsins hljóti að verða fyrir vonbrigðum þegar bíllinn gerir sig ekki betur en margir eldri og mun ódýrari bílar í þessum sama bílaflokki. „Fólk sem greiðir hámarksverð fyrir lúxusbíl hlýtur að vænta þess að fá bíl sem veitir þeim hámarksvernd.“ Sjá nánar um þetta á heimasíðu EuroNCAP.