Flaggskip Kia fær nafnið Quoris

Í maí mánuði kynnti Kia nýjan bíl í Kóreu undir nafninu Kia K9.  Fram kom að bíllinn fengi annað nafn utan heimamarkaðar þegar hann yrði markaðssettur þar seinna á árinu.  Nú er útflutningsnafnið á K9 komið og það er Quoris.  Talsmenn Kia segja að nafnið sé dregið af ensku orðunum ,,core“ eða kjarni og ,,quality“ gæði.  Quoris er einhverskonar nýyrði eða nafnleysa en langsótta skýringin á nafninu hefur farið um hendur markaðs- og auglýsingamanna. 

Kia Quoris Kia Quoris er afturdrifinn stór stallbakur.  Málin eru eftirfarandi: Lengd 509 cm, breidd 190 cm og hæð 149 cm.  Hjólhafið er 304,5 cm og loftmótstöðustuðullinn er  Cd 0,27.  Bíllinn er á stærð við BMW 7 línuna. 

Til að byrja með á að bjóða bílinn með 3,8 lítra V6 vél sem er 290 hestöfl.  Á næsta ári verður einnig boðin V6 vél með beinni innspýtingu sem er 333 hestöfl.  Í báðum tilvikum eru hestarnir sendir um 8-hraða sjálfskiptingu út í afturhjólin.

Talsmenn Kia segja að Quoris sé hlaðinn hátækni og að mikið sé lagt upp úr vandaðri hönnun og aksturseiginleikum.

Meðal öryggisbúnaðar sem finna má í Quoris er ASCC (advanced smart cruise control), háþróaður snjall-hraðastillir, AVSM (advanced vehicle safety management), háþróuð öryggis stjórnun sem inniheldur einnig ESC, skriðstilli.  Talsmenn Kia lofa einnig öryggisbúnaði sem á að vara ökumann við blindum blettum og ef hætta er samfara akreinaskiptum.  Quoris á að vera búinn myndavélakerfi, sem nær yfir allt svæðið í kringum bílinn (360 gráður) og auðveldar ökumanni að leggja af öryggi í bílastæði.

Samkvæmt upplýsingum frá Öskju umboðsaðila Kia á Íslandi liggur ekki fyrir hvort eða hvenær bíllinn verði markaðssettur á Íslandi.