Fleiri bílaskattar með hlýleg græn nöfn?

Þegar kemur að bifreiðum og bifreiðarekstri venjulegs fólks, almennings eru þeir margir sem telja sig hafa köllun til að hafa áhrif á það hvort, hvernig, hvar og hversvegna þau Jóna Jónsdóttir og Jón Jónsson eigi og noti heimilisbíla sína.

Stjórnmála- og embættismenn eru margir með þessu marki brenndir og í hvert sinn sem eitthvað fer úr skorðum í ríkisbúskapnum þá verður það fyrst fyrir að sækja meiri peninga í vasa Jónu og Jóns gegnum bílana þeirra. En til að friða þau tvö er kappsamlega alið á samviskubiti þeirra vegna þess hve bíllinn þeirra er mikill umhverfisskaðvaldur, mengunarvaldur, slíti götum og vegum og kosti samfélagið ógurlegar fjárhæðir.

Ekkert tiltökumál þykir því að leggja þungar álögur á bíla þeirra Jónu og Jóns og meira að segja allt í lagi að sækja í þeirra vasa fé til að leggja hjólreiða- og reiðvegi og byggja göngubrýr fyrir hundruð milljóna í stað þess að gera akstursleiðir greiðari og ekki síst öruggari. En til að sætta þau Jónu og Jón við að borga sífellt meir eru lagðir á nýir bílanotkunarskattar sem heita hlýlegum grænum nöfnum sem bera í sér andblæ ábyrgðar og umhverfismildi, t.d. kolefnisgjald. Og senn mega þau Jóna og Jón vænta meir af slíku.

Nýlega lauk sjö ára löngu alþjóðlegu þrefi um framtíð Kyotobókunarinnar um losun koltvísýrings út í loftið. Losun hans af mannavöldum (m.a. við eldsneytisbruna) er talin meginorsök þess að nú hlýnar á jörðinni og því hafa mörg ríki sem þátt tóku í þessum viðræðum um Kyotobókunina skuldbundið sig til að draga enn frekar úr losuninni. Íslensk stjórnvöld hyggjast draga úr nettólosun hans hér á landi um rúmlega 30% til 2020, miðað við árið 2005 þegar ávinningur af bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu hefur verið tekinn með í reikninginn, sem reyndar er allstór hluti þessara fyrirætlana.

Meginhluta minnkurinnar á greinilega að taka af meintri bílamengun, sem þó hefur stórminnkað, ekki síst eftir efnahagshrun og gæti minnkað enn meir ef endurnýjun bílaflotans í nýja, sparneytnari og mengunarminni bíla væri eitthvað í námunda við það sem telja mætti eðlilega.

Það liggur í loftinu að enn eigi að höggva í knérunninn þeirra Jónu og Jóns. Þau skulu þvinguð til að nota heimilisbíla sína minna en borga ella meir – að öllum líkindum mikið meir en þau þegar gera. Umhverfisráðherra undirbýr jarðveginn fyrir þetta með því að segja við ljósvakamiðla að bílarnir mengi mikið og þeir séu allt of stórir. Boðskapurinn er augljós.

Mjög öflugir CO2 mengunarvaldar aðrir, eins og flugið, siglingar, stóriðja, jarðhitavirkjanir og aðrar virkjanir, sem og hefðbundinn landbúnaður og sjávarútvegur og siglingar eiga að verða nokkurnveginn stikk frí. Hversvegna skyldi það nú vera? Er það vegna þess að þessir aðilar eiga sér sterkari málsvara eða bakhjarla en Jóna og Jón?