Fleiri Svíar missa prófið vegna skertrar heilsu

Þeim Svíum sem missa ökuskírteini sín af heilsufarsástæðum hefur fjölgað um 18 prósent á þessu ári miðað við allt árið í fyrra.  Svenska Dagbladet greinir frá þessu og hefur eftir yfirlækni sænsku umferðarstofunnar að með réttu hefði þeim átt að fjölga mun meira. –Þetta er alls ekki nóg, segir læknirinn.

En aukningin hefur komið í kjölfar hertra krafna á hendur læknum um að þeir tilkynni til yfirvalda um þá sjúklinga sína sem af einhverskonar heilsufarsástæðum ættu ekki að aka vélknúnum farartækjum. Þessar kröfur á hendur læknum voru hertar með reglugerð sem tók gildi í Svíþjóð í febrúar 2012. Við gildistöku hennar fjölgaði tilkynningum frá læknum um 50 prósent miðað við árið 2011. Ökuleyfissviptingum hefur jafnframt fjölgað að jafnaði um 10-20 prósent, sem er góð þróun að mati yfirlæknisins, Lars Englund.

Á hverju ári verða 25 þúsund Svíar heilabilun að bráð í þeim mæli að þeir teljast ekki færir um að stjórna ökutæki af öryggi. Ennfremur fá um 30 þúsund hjartasjúkdóma og aðra sjúkdóma og heilsufarsleg áföll sem hafa slæm áhrif á ökufærnina. Lars Englund nefnir einnig alkóhólista meðal þeirra sem nauðsynlegt sé að hafa strangara eftirlit með. –Alkóhólismi er þesskonar sjúkdómur að það er sjaldnast hægt að treysta því fólki sem hrjáð er af sjúkdómnum. Því miður, segir yfirlæknirinn.

Þessvegna verði að taka enn fastar á málum gagnvart alkóhólistunum strax. Það gæti þýtt að 10 þúsund manns árlega til viðbótar misstu ökuréttindi sín. –Læknar verða að skilja það að það er mikilvægt að þeir grípi til aðgerða, segir Lars Englund.