Flestir veðja á vistvæna bíla

Meirihluti Akureyringa sem tóku afstöðu í nýrri könnun um bifreiðakaup stefnir á að kaupa bíl sem er að hluta eða öllu leyti drifinn áfram af vistvænum orkugjöfum. Rafbílar koma þar helst til greina, en þónokkur fjöldi fólks íhugar að kaupa tengi-tvinnbíl eða metanbíl.

Könnunin var gerð af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Norðurorku. Spurt var um næsta bíl sem fólk telur líklegt að það kaupi með tilliti til orkugjafa. Um 30% stefna á að kaupa bensín eða díselbíl, 23% rafbíl, 18% tengi-tvinnbíl og um 1% metanbíl. 28% svarenda sögðust ekki vita það/tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.

Ef einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu kemur í ljós að 59% hugsa sér að kaupa næst bíl sem drifinn er áfram af vistvænum orkugjöfum; rafbíl, tengi-tvinnbíl eða metanbíl. 41% telja líklegt að bensín eða díselbíll verði næst fyrir valinu. Þriðjungur þeirra sem tóku afstöðu veðja á rafbíl, fjórðungur á tengi-tvinnbíl en aðeins tæp 2% á metanbíl.

Könnunin var eins og áður sagði framkvæmd af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Hún var send á netföng 1.055 einstaklinga sem skráðir eru á Akureyri. 614 svöruðu könnuninni og telst svarhlutfall því vera 58%.