Flestir vilja Atlantsolíu

http://www.fib.is/myndir/Heilsast.jpg
Árni Sigfússon formaður FÍB og Geir Sæmundsson forstjóri Atlantsolíu handsala samning félaganna um FÍB-Atlantsolíulykilinn og tveggja króna afslátt af bílaeldsneyti til félagsfólks í FÍB.

Í könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ Háskóla Íslands gerði fyrir Atlantsolíu kemur í ljós að flestir aðspurðra vilja helst að Atlantsolía fái lóðir undir mannlausar sjálfsafgreiðslustöðvar.  Spurt var hvaða olíufyrirtæki fólk kysi helst sem rekstraraðila ef ákveðið yrði að heimila ómannaða sjálfsafgreiðslustöð í hverfi þess. Stóð valið milli Shell sem rekur Orkuna, Esso sem rekur Ego og Olíss sem rekur ÓB og Atlantsolíu. Könnunin var gerð dagana 8. til 22. Mars. Hringt var í rúmlega 1400 manns og var svarhlutfall um 67% af öllu landinu.

Á höfuðborgarsvæðinu var mestur stuðningur við Atlantsolíu í Hafnarfirði eða 69%, en um 55% Kópavogi og Reykjavík.  Að jafnaði fengu gömlu olíufélögin um 18% fylgi hvert fyrir sig. Ef greint var eftir atvinnu svarenda kom fram marktækur munur milli þeirra sem töldust til iðnaðarmanna annars vegar og til bænda og sjómanna hins vegar. Þannig vildu 65% iðnaðarmanna fá Atlantsolíu í nágrennið á móti 26% bænda og sjómanna en þar hafði Esso sem rekur Ego yfirburði með 33%. Þá var athyglisvert hversu fáir iðnaðarmenn vildu Shell sem rekur Orkuna eða 4%. Eins var marktækur munur eftir menntun en með meiri menntun jókst stuðningur við Atlantsolíu eða úr 38% þeirra sem höfðu bara grunnskólapróf í 60% þeirra sem höfðu háskólamenntun að baki.
http://www.fib.is/myndir/Bensinstod.jpg