FM útvarp á útleið

Hjá FDM, hinu danska systurfélagi FÍB hafa menn af því áhyggjur að til stendur að leggja niður FM-útvarpssendingar frá og með 2019 og taka upp stafrænar DAB-útsendingar. Áhyggjurnar eru um það hversu breytingin muni fyrirsjáanlega verða bifreiðaeigendum dýr.

Með breytingunni verða útvarpsviðtæki bílanna ónothæf. Það þarf því að fjarlægja þau úr bílunum og koma fyrir DAB móttöku- og spilunartækjum fyrir í þeim í staðinn. En gallinn er sá að margskonar umstang og vesen á eftir að fylgja breytingunni. Fyrir það fyrsta teljast FM útvarpstækin vera hluti af öryggis- og staðalbúnaði bíla sem þýðir að engin sérstök skráningargjöld leggjast ofan á þau. DAB tækin teljast aftur á móti vera aukabúnaður og ofan á verðmæti þeirra munu því að öllum líkindum leggjast sérstök 180 prósenta skráningargjöld. Ekki mun hafa verið hugað að nauðsynlegri lagabreytingu vegna þessa. Ennfremur er óvissa er um kostnað við að rífa FM tækin úr og síðan kaupa DAB tæki og setja þau í eldri bíla. En í heild munu umskiptin kosta milljarða danskra króna. Sem dæmi um verð DAB tækja í Danmörku kosta þau tæplega 200 þús. ísl. kr. í nýjustu kynslóð VW Golf en algengt verð tækjanna er 100-200 þúsund ísl. kr. Bílar í umferð í Danmörku eru nú um 2,3 milljónir og það gefur því auga leið að það verður dýrt spaug fyrir bíleigendur að fá þokkalegt útvarp í bílana sem virkar eftir 2019. FDM óttast að afleiðingin verði sú að bílum sem ná þokkalegum útvarpssendingum muni mjög fækka. Þetta DAB-mál sé komið í tæknilega blindgötu.

Svo er annar vinkill á þessu máli. Hann er sá að nýir bílar eru flestallir núorðið nettengdir og taka við og senda frá sér gögn um gagnaveitur bílaframleiðenda. Hvort eða hve mikinn aðgang staðbundnar útvarpssendingar muni fá að þessum gagnaveitum bílaframleiðendanna er óvissa um. Það er því hugsanlegt að fólk á ferðinni í bílum sínum muni ekki lengur eiga þess kost eftir 2019 að hlusta á t.d. staðbundið morgunútvarp í bílum sínum um ástandið í umferðinni í kring um sig, eða heyra staðbundnar fréttaútsendingar í bílum sínum á leið til og frá vinnu nema með því að leggja í hrikalega kostnað. FDM kallar því eftir að hið fyrsta verð gert óháð úttekt á málinu öllu og fjárhagslegum og félagslegum afleiðingum breytingarinnar. Jafnframt verði þeir stjórnmálamenn sem hafa þetta mál á sinni könnu að skoða allar hliðar þeirra og ennfremur að hlusta á öll rök allra málsaðila. Það hafi sænskir stjórnmálamenn gert og og sé niðurstaða þeirra sú að slökkva ekki á FM útsendingakerfinu fyrr en fundin sé viðunandi lausn á öllum álitamálunum, ekki síst þeim sem lúta að kostnaði bifreiðaeigenda af breytingunum.