Fölsuð kílómetrastaða í notuðum bílum

Svona tæki kostar ekki mikið á netinu en með því má auðveldlega ,,skrúfa
Svona tæki kostar ekki mikið á netinu en með því má auðveldlega ,,skrúfa" niður kílómetratölur bíla.

ADAC; systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur birt niðurstöður athugunar á hvort og hversu algengt er að skrúfaðir séu niður kílómetrateljarar bíla til að láta líta út fyrir að þeir séu minna eknir en raunin er og gera þá þannig söluvænni og verðmeiri í sölu.

    Þessi svik hafa lengi verið þekkt í veröldinni og ýmislegt gert, m.a. hérlendis, til að sporna við þeim, t.d. með því að verkstæði og skoðunarstöðvar skrái kílómetrastöðuna þegar bíll kemur til skoðunar eða viðgerðar.

    Þegar stafrænir teljarar og hraðamælar leystu hina vélrænu mæla fortíðar af hólmi bundu menn vonir við að erfiðara yrði að koma í veg fyrir þessar falsanir en það reyndist tálsýn. ADAC og önnur evrópsk systursamtök bifreiðaeigenda hafa þrýst á yfirvöld  um að setja á lög og reglur um þessar falsanir og viðurlög við brotum. Þau hafa ennfremur þrýst á bílaframleiðendur með að setja upp rafrænar hindranir sem gera athæfið erfiðara. Þær hafa stundum dugað um stund en svo sækir aftur í sama farið enda er nú er svo komið að hver sem er getur nálgast sífellt fullkomnari og ódýrari tæki í þessum tilgangi sem stungið er í samband við stjórntölvu bílsins og síðan er hægt að velja hvaða kílómetratölu sem er á örskotsstund.

    ADAC útvegaði sér tæki af þessu tagi í netverslun og prófaði virkni þess með því að stinga því í samband við þrjá mismunandi bíla. Þeir voru Ford Kuga árgerð 2019, Opel Grandland X árgerð 2020 og Peugeot 208 árgerð 2019. Eftir að tækið var komið í samband við stjórntölvur bílanna liðu einungis örfáar mínútur þar til hægt að stilla inn nýjar og falskar kílómetratölur. Engar innbyggðar varnir í þessum bílum dugðu. Samkvæmt upplýsingum sem ADAC aflaði sér frá þýsku lögreglunni þá er talið að allt að þriðji hver notaður bíll á þýskum söluskrám á netinu séu með niðurfærðar og þar með falsaðar kílómetratölur.  

    Fjölmörg mál af þessu tagi eru kærð og koma til kasta lögreglu og dómstóla í Evrópusambandsríkjunum á hverju ári enda er tekið hart  á þeim sem hverjum öðrum fölsunarmálum. Mest ber á þessum fölsunum í notuðum bílum sem seldir eru milli ríkja því þá getur verið erfiðara fyrir hlunnfarna kaupendur að eltast við þessi mál og fylgja eftir rétti sínu. Fölsuni uppgötvast t.d. ef bíllinn bilar. Þá kemurí ljós að einhverjir hlutar bílsins eru óeðlilega slitnir miðað við kílómetratöluna í mælaborðinu.

    Þeir sem hyggja á kaup á notuðum bíl erlendis ættu að krefjast allra upplýsinga um feril bíla sem þeir hyggjast kaupa og skoða vel alla pappíra, svo sem viðgerðareikninga, skoðunarskýrslur og slíkt allt og bera saman kílómetratölur í þeim plöggum saman við það sem á hraðamælinum stendur. Þá er almennt hyggilegra að eiga bílaviðskipti við erlendar alvöru bílasölur en beint af einstaklingum sem auglýst hafa bílinn t.d. á netinu. Það getur orðið erfitt að sækja rétt sinn yfir Atlantshafið ef eða þegar í ljós kemur að maður hefur keypt köttinn í sekknum.