Ford sker niður í Bandaríkjunum

http://www.fib.is/myndir/Ford_expedition.jpg

Ford hefur dregið úr bílaframleiðslunni í heimalandinu, Bandaríkjunum um 21% miðað við það sem áætlað var að framleiða síðustu fjóra mánuði ársins. Það þýðir að 188 þúsund færri bílar verða byggðir en ráðgert var.

En Ford á varla margra annarra kosta völ því að eftirspurnin hefur dalað mjög og ekki telst sérlega hagkvæmt að framleiða óseljanlega bíla í stórum stíl sem staflast svo upp á lagerum hingað og þangað. Þeir bílar sem einkum er um að ræða eru stórir fjórhjóladrifnir jeppar og stórir pallbílar. Eftirspurn eftir þeim hefur mjög minnkað í Bandaríkjunum undanfarið, en að sama skapi aukist eftir minni og eyðslugrennri bílum,

Unnið er eftir sérstakri hagræðingaráætlun hjá Ford sem kölluð er Way Forward. Samkvæmt henni verður alls 14 verksmiðjum Ford í Bandaríkjunum lokað og 30 þúsund starfsmönnum sagt upp á næstu fjórum árum.