Formúla fyrir rafbíla

FIA sem er heimsstjórn bílasportsins hefur heimilað sérstaka heimskeppni í kappakstri bíla sem einvörðungu eru knúnir rafmagni – rafmagns-formúlu. Keppt verður í rafmagnsformúlunni í fyrsta sinn á næsta ári. Spænskur milljarðamæringur er frumkvöðull rafmagnsformúlunnar og á hans vegum er verið að  skipulegga þennan viðburð.

Rafmagnsformúlan hefur fengið eigið nafn sem er Formula E Electric. Keppnisloturnar eiga að fara fram á kappakstursbrautum innan marka helstu borga heimsins. Nú þegar hafa London, Rio de Janeiro, Höfðaborg, Tokyo og Monaco lýst vilja til að hýsa keppnina. Ýmsir innan hinnar hefðbundnu Formúlu 1 hafa lengi sóst eftir því að Formúlu 1 keppni fái inni í Höfðaborg í S. Afríku. Borgaryfirvöld hafa hins vegar ekki viljað fá keppnina inn á götur borgarinnar á svipaðan hátt og í Monaco. Hins vegar hafa þau lýst því yfir að öðru máli gegni um rafmagnsformúlukeppni enda stafi hvorki mengun né hávaða frá rafbilunum.

Svipaða sögu er að segja af Boris Johnson borgarstjóra í London sem hefur fyrir sitt leyti hefur samþykkt að rafmagnsformúlan fari fram í miðborg London, enda muni þessi nýja raf-formúla gefa bílasportinu nýja vídd að hans sögn.

FIA er ekki bara samtök og yfirstjórn bílaíþrótta í heiminum heldur líka heimssamtök bifreiðaeigendafélaga. Samtökin hafa mjög hvatt til framfara í öllu sem lýtur að samgöngum og hreyfanleika almennings og vel þekkt er aðkoma samtakanna að öruggari bílum (Euro NCAP) og öruggari vegum (Euro RAP), minni eldsneytiseyðslu og mengun af völdum bíla. Með því að opna á keppni í rafmagns-formúlu er ekki aðeins verið að leitast við að efla veg rafbíla, heldur líka að stuðla að hraðari þróun þeirra og bættu notagildi fyrir almenning.

Það er ekki síst drægi rafbílanna sem hefur verið og er enn helsta hindrunin í vegi fyrir útbreiðslu þeirra meðal almennings. Líklegt má telja að E-Formúlan muni verulega flýta fyrir tækniþróun rafbílanna. Keppnisbílarnir í E-formúlunni á næsta ári verða sannarlega hraðskreiðir og öflugir. Hámarkshraðinn verður langt yfir 200 km á klst. En vegna þess hve drægið er stutt, er hugmyndin sú að hver ökumaður í keppninni verði með fleiri en einn bíl til umráða í hverri keppnislotu. Þegar rafmagnið tekur að minnka rennir ökumaður inn á þjónustusvæði og stekkur upp í næsta fullhlaðna bíl og heldur áfram keppni meðan sá tómi  er hlaðinn upp á ný og þjónustaður eftir þörfum að öðru leyti.