Forseti FIA gerist sendiherra SÞ

Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur útnefnt Jean Todt forseta FIA - alþjóðasambands bíleigendafélaga, sem sérlegan umferðaröryggis-sendiherra sinn. Útnefningin fór fram á fundi í París í gær. Á myndinni er Jean Todt í miðið ásamt konu sinni Michelle Yeoh og Ban Ki-moon.

Í þessari útnefningu felst að Todt mun aðstoða Ban Ki-moon við að móta langtímaáætlun um öruggari umferð. Jean Todt á ennfremur að útbreiða þekkingu og skilning á þessum markmiðum SÞ og á þeim lagalegu úrræðum sem samtökin hafa yfir að ráða. Þá skal hann styrkja almenna vitneskju um gildandi umferðarlög og -reglur og ábyrga umferðarhegðun, m.a. með því að taka þátt í heimsráðstefnum sem og staðbundnum ráðstefnum og fundum um umferðaröryggismál. Þessu til viðbótar skal sendiherrann gangast fyrir því að fjármagna verkefni sem stuðlað geta að bættu umferðaröryggi og stilla saman krafta opinberra aðila, félagasamtaka og einstaklinga sem vilja leggja hendur á plóg.

Við útnefninguna í París í gær sagði  Jean Todt forseti FIA meðal annars að umferðaröryggismál væru allt of oft látin afskiptalaus og fram hjá því litið að umferðarslys í heiminum eru algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15-29 ára. Því mætti ætla að stjórnmálamönnum og löggjafarvaldi heimsins þætti það ómaksins vert að taka þessi mál á dagskrá. Útnefning hans yrði vonandi til þess að umferðarslysafaraldurinn og baráttan gegn honum fái meiri almenna athygli og aukið vægi hjá stjórnmálamönnum.  

„Hjá mér í forsetatíð minni hjá FIA og hjá meðlimum samtakanna hefur umferðaröryggi orðið að meginverkefni. Ég setti mér það markmið í upphafi að sameina alla hlutaðeigandi í baráttu fyrir bættu umferðaröryggi. Þessi nýja staða sem ég nú tek við mun efla það starf og stuðla að enn öflugari samvinnu um bætt umferðaröryggi í heiminum,“ sagði Jean Todt.

Á hverju ári deyr um 1,3 milljón manns í umferðarslysum í heiminum og 50 milljón manns slasast alvarlega. 90 prósent slysanna eiga sér stað í þróunaríkjum þrátt fyrir það að í þessum ríkjum sé einungis um það bil helmingur alls bílaflota heimsins í umferð. Næstkomandi mánudag, 4. maí hefst umferðarvika Sameinuðu þjóðanna. Hún er helguð þeim 500 börnum sem láta lífið í umferðinni í heiminum hvern einasta dag árið um kring. Undir lok þessa árs, dagana 18.-19. nóvember verður svo alþjóðlegur ráðherrafundur um umferðaröryggismál haldinn í Brasilíu. Á fundinum verður m.a. metinn árangurinn hingað til af umferðarátaki SÞ; áratugi aðgerða gegn umferðarslysum (UN Decade of Action for Road Safety 2011-2020).