Forseti FiA til Íslands

Jean Todt forseti FiA kemur til Íslands í stutta heimsókn næstkomandi þriðjudag. Hér á landi heimsækir hann höfuðstöðvar þeirra tveggja félagasamtaka sem aðild eiga að FiA en þau eru FÍB og LÍA – Landssamband íslenskra akstursíþróttaklúbba. Þá mun hann hitta að máli Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands á Bessastöðum, Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og forvígismenn Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

Heimsóknin tengist alþjóðaátakinu Decade of Action, eða áratugi aðgerða gegn umferðarslysum í heiminum. Átakinu verður hleypt af stokkunum þann 11. maí nk.

Jean Todt á að baki langan og farsælan feril í alþjóðlegu mótorsporti. Hann byrjaði sem rallökumaður og síðar aðstoðarökumaður hjá Peugeot. Hann varð síðan liðsstjóri Peugeot og varð rall-lið Peugeot mjög sigursælt undir hans stjórn.

Frá Peugeot fluttist hann svo til Ferrari sem þá lifði fyrst og fremst á fornri klappakstursfrægð en markaði engin djúp spor lengur í þeim geira. Todt byggði upp hið sigursæla Formúlu 1 lið frá grunni og réði til liðsins unga og efnilega ökumenn, þeirra á meðal Michael Schumacher sem kom til starfa sem ökumaður hjá Ferrari liðinu árið 1996. Eftirleikinn þekkja allir.

Jean Todt var kjörinn forseti FiA í október 2009 þegar Max Mosley lét af embætti. Todt fylgir ötullega þeirri stefnu sem Mosley markaði í forsetatíð sinni að efla umferðaröryggi og öryggi í mótorsportinu sem allra mest. Að þessum málum vinnur hann ötullega og af sannfæringu og hefur verið sæmdur riddarakrossi frönsku heiðursfylkingarinnar fyrir störf sín.